Krapastífla hefur gert það að verkum að Hafralónsá hefur flætt yfir veginn síðan á gamlársdag. Sex manna fjölskylda á Tunguseli í Þistilfirði hefur verið innlyksa á bænum síðan þá.
Mbl.is fékk góðfúslegt leyfi Vegagerðarinnar til að birta drónaskot sem Vegagerðin lét taka til að hægt væri að rýna betur í stöðuna. Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá hvernig Hafralónsá hefur rutt sér yfir veginn við ristarhlið og hvernig snjór og krapi hafa kaffært veginn ofan við brúna. Þá má sjá hvernig Hafralónsáin er kolstífluð við brúna og hvar Vegagerðin er búin að opna vakir beggja megin brúar til að kanna aðstæður.
Það hefur ýmislegt verið reynt og menn hafa brotið heilann síðustu daga um hvað sé hægt að gera í málinu. Það stóð til að fá stóra beltagröfu frá verktaka í Öxarfirði sem er með 20 metra langa bómu til að reyna að vinna á stíflunni en þær fyrirætlanir hugnuðust ekki veiðifélaginu.
Sigurður Þór Guðmundsson, oddviti í Svalbarðshreppi, segir menn ætla að treysta á hlákuna um helgina og sýna þolinmæði fram yfir helgi. Hann segir heimilismenn ennþá rólega. Hægt sé að komast að bænum á vélsleða en allir séu meðvitaðir um aðstæður fjölskyldunnar og björgunarsveit sé í viðbragðsstöðu.
Ævar Rafn Marinósson, bóndi á Tunguseli, segir að hann eigi ekki von á að hlákan verði nægilega mikil til að vinna á stíflunni.
„Þegar verulega stór krapastífla ver í ánni síðast fyrir rúmum 40 árum þá var enginn straumur í henni en í dag er harðkornarennsli og áin rennur yfir í kverkána. Áin er trúlega búin að taka í sundur veginn og er komin í þægilegan farveg. Þess vegna verðum við að finna leið til að hjálpa ánni að losa stífluna því annars verður hún sennilega í þessum farvegi í allan vetur.“
Björgunarsveitin Hafliði á Þórshöfn á Langanesi sendi frá sér tilkynningu í gærkvöld þar sem athygli fólks var vakin á stíflunni í Hafralónsá og hugsanlegrar hættu á að hún bresti skyndilega.