Sveitarstjórnir Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps eru byrjaðar að fjalla um umsókn Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi vegna Hvammsvirkjunar í Þjórsá. Oddviti Rangárþings ytra telur að gera þurfi samfélagssáttmála um framkvæmdina og frekari nýtingu orku í héraði og oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps segir að í ferlinu hingað til hafi ekkert verið fjallað um samfélagsleg áhrif virkjunarinnar og þurfi Landsvirkjun að svara ýmsum spurningum sveitarstjórnarinnar. Oddviti Rangárþings ytra telur að það taki einhverjar vikur að afgreiða málið en oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps reiknar með að umfjöllunin taki nokkra mánuði.
Mannvirki Hvammsvirkjunar verða meira á austurbakkanum og því fær Rangárþing ytra fasteignaskatta af stöðvarhúsi og fleiri mannvirkjum. Áhrifa virkjunarinnar gætir hins vegar meira í byggð hinum megin ár, í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Haraldur Þór Jónsson, oddviti og sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, segir að sveitarstjórnin meti það svo í upphafi þessa ferils að þrátt fyrir að unnið hafi verið að undirbúningi virkjunarinnar í meira en tvo áratugi hafi ekkert verið fjallað um samfélagsleg áhrif hennar í byggð. Telur hann ámælisvert að ekkert tillit hafi verið tekið til íbúanna í þessu langa ferli. Segir Haraldur að það sé stóra vandamálið í vinnunni fram undan og ljóst að Landsvirkjun þurfi að svara mörgum spurningum um þann þátt málsins.
Sveitarstjórn Rangárþings ytra vill gera samfélagssáttmála vegna framkvæmdarinnar og frekari nýtingar orku í héraði. Eggert Valur Guðmundsson oddviti segir að slíkur sáttmáli snúist um að tryggja að samfélagið og umhverfið njóti góðs af framkvæmdunum en verði ekki fyrir skaða.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.