Héraðsdómari lætur reyna á endurgreiðslur ofgreiddra launa

Frá Hérðasdómi Reykjavíkur
Frá Hérðasdómi Reykjavíkur mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur hefur ákveðið að láta reyna á endurgreiðslukröfu Fjársýslu ríkisins á hendur sér í kjölfar þess að í ljós kom að við framkvæmd hækkunar launa æðstu embættismanna landsins hafi ekki verið notast við rétt lögbundið viðmið. Greint var frá málinu í morgun á fréttavef Vísis.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið fór í kjölfarið fram á endurgreiðslu ofgreiddra launa. Endurgreiðsluferillinn hófst í september síðastliðinn. Þeir sem fengu ofgreitt voru forseti Íslands, ráðherrar og þingmenn, dómarar og saksóknarar, lögreglustjórar, ráðuneytisstjórar, seðlabankastjóri og aðstoðarseðlabankastjóri, sem og ríkissáttasemjari.

Algengt er að endurgreiðslufjárhæðin svari til um þriðjungs einna mánaðarlauna og þannig getur hún hlaupið á hundruðum þúsunda króna í einhverjum tilfellum. Dómarafélag Íslands mótmælti ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins harðlega í sumar en félagið taldi ákvörðunina í andstöðu við gildandi lög um launakjör dómara.

Dómarar landsins eru að sjálfsögðu vanhæfir til að fjalla um málið og því þykir líklegt að skipa þurfi utanaðkomandi sérfræðinga til að dæma í málinu rétt eins og gert var í máli Guðjóns St. Marteinssonar héraðsdómara gegn íslenska ríkinu.

Mál Guðjóns snéri einnig að kjaramálum og skipuð voru þau Þórður S. Gunnarsson, þáverandi forstöðumaður lagadeildar HR, Ragnhildur Helgadóttir, lagaprófessor við skólann og Róbert Spanó, þáverandi dósent við lagadeild HÍ sem dómarar. Guðjón vann málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert