Íslenska ríkinu hefur verið gert að greiða Alberti Klahn Skaftasyni 26 milljónir króna í bætur. Hann var einn sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
Hann krafði ríkið um 200 milljónir króna vegna frelsissviptingar og miska sem hann varð fyrir vegna málsins. Albert hafði áður fengið greiddar 15 milljónir króna í bætur úr ríkissjóði árið 2020. Sú fjárhæð kemur til frádráttar þeirri bótafjárhæð sem núna hefur verið ákvörðuð.
Kröfu Alberts um 8 milljóna króna bætur fyrir fjártjón vegna tekjumissis var vísað frá dómi, að því er kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.
Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður Alberts greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans upp á fjórar milljónir króna.
Albert var sýknaður við endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins fyrir Hæstarétti árið 2018, en hann var dæmdur í 12 mánaða fangelsi á sínum tíma fyrir aðild sína að málinu. Þá sat hann í gæsluvarðahaldi í 88 daga.
Fram kemur í niðurstöðu héraðsdóms að Albert eigi rétt á miskabótum vegna gæsluvarðhaldsvistar, sakfellingar og afplánunar vegna málsins.
„Þá verður einnig litið til þess að stefnandi þurfti um langt árabil að þola að vera dæmdur sekur fyrir aðild að hvarfi Guðmundar, til þeirrar andlegu og líkamlegu raunar sem sakfellingin og frelsissviptingin olli honum, til þess að hann sætti vanvirðandi meðferð í gæsluvarðhaldinu, til þess að sakfelling hans var gerð á grundvelli rannsóknar og málsmeðferðar sem braut gegn rétti hans sem sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar, og afleiðinga alls framangreinds á andlega og líkamlega heilsu hans,“ segir í niðurstöðunni.
Hrafnkell Oddi Guðjónsson lögmaður flutti málið fyrir Albert en Andri Árnason lögmaður flutti málið fyrir ríkið.