Skipakomur nálgist viss þolmörk

Magellan kemur til Reykjavíkur í árdaga heimsfaraldurs, í mars 2020. …
Magellan kemur til Reykjavíkur í árdaga heimsfaraldurs, í mars 2020. Nú er faraldurinn að baki og skipunum fjölgar. En fjölgar þeim um of? mbl.is/Kristinn Magnússon

„Almennt séð eru skemmtiferðaskipakomur umdeildar í ferðaþjónustu víða um heim og það á við hér á landi sem annars staðar,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við mbl.is um boðaðar skemmtiferðaskipakomur til landsins á nýhöfnu ári. Hann er spurður út í hvort þessi ferðamáti sé leiðin til að auka verðmæti hvers farþega í augum ferðaþjónustunnar.

„Það er töluvert mismunandi hvað þessar skemmtiferðaskipakomur gefa af sér inn í bransann og skilja eftir af verðmætum,“ segir Jóhannes og kveður einkum litið til neyslu ferðamanna á áfangastöðum þegar mat er lagt á hið svokallaða verðmæti þeirra.

„Víðast hvar í Evrópu ber ferðaþjónustuaðilum saman um að verðmæti hvers farþega með skemmtiferðaskipi sé snöggtum minna en annarra ferðamanna. Þeir sem koma í hvata- og ráðstefnuferðir gefa yfirleitt af sér tvöfalt til þrefalt meira í neyslu en þessir venjulegu ferðamenn og skemmtaferðaskipaferðalangar eru svo með heldur minni og jafnvel töluvert minni neyslu á áfangastaðnum en þessir hefðbundnu rútu- eða bílaleigubílaferðalangar,“ heldur Jóhannes áfram.

„Þeirra áfangastaður er skipið“

Farþegar með skemmtiferðaskipum kaupi til dæmis ekki gistingu þar sem þeir gista um borð í skipinu auk þess sem þeir borði flestar sínar máltíðir í skipinu. „Þeirra áfangastaður er skipið,“ segir Jóhannes og bætir því við að engu að síður kaupi farþegar með skemmtiferðaskipum ýmsa þjónustu í landi og töluverður fjöldi fyrirtækja hafi tekjur af að þjónusta skipin, fram hjá því sé ekki hægt að líta.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, lítur björtum augum á …
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, lítur björtum augum á 2023 og sér fyrir sér heilbrigða fjölgun erlendra gesta. mbl.is/Kristinn Magnússon

„En þegar þú setur spurninguna fram með þessum hætti þá eru skemmtiferðaskipin ekki góð leið til að auka tekjurnar af hverjum ferðamanni. Þau eru góð viðbót en ef við erum að tala um betur borgandi ferðamenn þá eru það þeir ferðamenn sem koma hingað í eina viku, tvær vikur eða jafnvel lengur, ferðast víða um land og eru með mikla neyslu á áfangastað,“ segir Jóhannes.

Viss uggur sé í ferðabransanum vegna mikillar fjölgunar skemmtiferðaskipa. „Það snýr að því hvort við höfum afkastagetu til að sinna öllum þessum hópi og þá er ég að tala um leiðsögumenn, ökumenn og svo framvegis,“ heldur Jóhannes áfram og segir ferðaþjónustuna komna í samræður við hafnaryfirvöld um hvernig best sé að standa að framkvæmdinni.

Bjartsýnn gagnvart 2023

„Við fundum fyrir því í sumar að þar var komið að ákveðnum þolmörkum og þess vegna vekur þessi mikla aukning núna á þessu ári spurningar um hvort við náum að gera þetta nægilega vel. Þá horfum við kannski svolítið til þess að hafnirnar samþykki ekki bara alla sem vilja koma heldur hafi til hliðsjónar hvort þessi keðja sé öll í lagi. Það er samtal sem við þurfum að eiga og er hafið,“ segir Jóhannes.

Byggingar virðast óneitanlega smærri með slíkan risa í forgrunni.
Byggingar virðast óneitanlega smærri með slíkan risa í forgrunni. mbl.is/Árni Sæberg

Undir lokin, hvernig leggst árið 2023 í hann hvað ferðaþjónustuna snertir?

„Það leggst ágætlega í mig,“ svarar Jóhannes en slær þó þann varnagla að vissulega séu einhverjar eftirlegukindur af vandamálum heimsfaraldursins á sveimi og áskoranir á borð við skuldsetningu ferðaþjónustuaðila og stórhækkað verð allra aðfanga.

„Eftirspurnin hefur verið mjög góð og hún fór mun hraðar upp en við áttum von á eftir faraldurinn svo þetta ár leggst vel í okkur,“ heldur hann áfram en telur þó nokkuð vel í lagt að spá 2,3 til 2,6 milljónum ferðamanna til landsins á árinu.

„Við viljum taka örlítið íhaldssamar í þetta og horfa kannski á tvær til 2,1 milljón. Fólk sem átti uppsafnaðan ferðasjóð og ferðaóróa eftir faraldurinn tók það svolítið út í fyrra auk þess sem efnahagsástandið núna spilar inn í. Ég held að við megum búast við aukningu, en ekki einhverri sprengju, bara heilbrigðri aukningu og að því leytinu erum við bara mjög bjartsýn á árið,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, að lokum í samtali um skemmtiferðaskip og ferðaárið 2023 á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka