Starfshópur sem Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra skipaði til að semja drög að áætlun til að takast á við aðstæður eins og sköpuðust á Reykjanesbraut fyrir jól á að skila af sér skýrslu í næstu viku
Starfshópurinn er skipaður fulltrúum frá Vegagerðinni, ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Fulltrúi frá innviðaráðuneytinu stýrir vinnunni. Hlutverk hópsins er að fara yfir það sem gerðist, greina atburðarásina og hvað hefði betur mátt fara.
„Við erum á fullu að vinna í þessu með þessum hópum,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri hjá almannavörnum.
„Við rýnum í allt sem við gerum og það er því eðlilegt fyrir okkur rýna í þetta,“ bætir hún við.
Uppfært kl. 14:57
Upphaflega í fréttinni var talað um að skýrslan ætti að liggja fyrir 10. janúar nk. Innviðaráðuneytið bendir aftur á móti á að starfshópurinn stefni að því að skila af sér skýrslunni í lok næstu viku. Leiðréttist þetta hér með.