Talsverð aukning varð á lyfjaávísunum ópíóða til einstaklinga sem eru með mígreni á árunum 2010 til 2019 samanborið við næsta áratug þar á undan.
Þetta kemur fram í grein í Læknablaðinu eftir hóp sérfræðinga um rannsóknir á algengi og nýgengi mígrenis og ávísunum á lyf við sjúkdómnum. Þar er aukin notkun ópíóða sögð áhyggjuefni sem þarfnist nánari athugunar.
„Notkun ópíóða getur átt rétt á sér við ýmsum skammvinnum verkjaeinkennum en notkun ópíóða við mígreni er ekki talin æskileg,“ segja greinarhöfundar. Getur notkun ópíóða aukið líkur á þrálátu mígreni og á lyfjahöfuðverk. Hins vegar hefur átt sér stað jákvæð þróun fyrirbyggjandi lyfjameðferðar með aukinni notkun beta-blokka meðal einstaklinga sem greinst hafa með mígreni.