Mengunin í vetrarstillum tengist ekki nagladekkjum

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mengunin sem hefur legið á höfuðborgarsvæðinu á stilltum vetrardögum og rýrt loftgæði svo um munar, er einkum tvíþætt. Annars vegar er um að ræða of mikið magn af niturdíoxíð (No2) og hins vegar brennisteinsvetni (H2S). 

Þegar þessar tvær lofttegundir blandast saman verður til eins konar súpa af efnum og áhrifin verða meiri. 

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis- og loftslagsráðherra, segir þetta tilefni fyrir sveitarfélögin að flýta fyrir rafvæðingu strætisvagna, halda almennri rafbílavæðingu áfram af krafti og að flýta áformum um niðurdælingu. 

„Umræðan hefur verið aðeins á villigötum og á þá leið að þetta tengist eitthvað nagladekkjum, en þau geta valdið sliti á götum og þar af leiðandi svifryksmengun. Slíkt er ekki í gangi núna þó það muni koma þegar tekur að hlýna og þá skiptir miklu máli að rykbinda.“

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri tísti um það fyrr í dag að nagladekk væru valdur mengunarinnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Gamlir díseltrukkar verstir

Niturdíoxíð er gastegund sem kemur við útblástur bíla, sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, frá skipum í höfnum og frá álverinu í Straumsvík. 

„Verstir eru gamlir trukkar sem ganga fyrir díselolíu en þetta kemur til að mynda ekki frá rafbílum.“ 

Guðlaugur Þór bendir á að í dag séu aðeins 15 af 160 strætisvögnum rafdrifnir. Hvað varðar rafvæðingu einkabílsins, þá er Ísland í öðru sæti yfir lönd sem komin eru hvað lengst við að skipta bílum sem nota jarðefnaeldsneyti, út fyrir rafbíla. „Við þurfum samt að ganga enn hraðar í það.“

Ódýr og góð leið

Brennisteinsvetnin stafar frá jarðvarmavirkjunum í grennd við höfuðborgina. „Það er kjörið að flýta áformum um niðurdælingu. Nú er gert ráð fyrir að Hellisheiðavirkjun klári að innleiða hana árið 2025 og Nesjavallarvirkjun árið 2030.“

Guðlaugur Þór segir niðurdælingu vera bæði ódýra og góða leið til þess að vinna á brennisteinsvetnismenguninni, og þarna sé tækifæri til að gera betur. 

Hér má sjá stöðu Íslands samanborið við önnur lönd í …
Hér má sjá stöðu Íslands samanborið við önnur lönd í Evrópu, þegar kemur að No2 mengun. Tafla/Umhverfisstofnun Evrópu
Hér sést svo staða Íslands samanborið við önnur lönd í …
Hér sést svo staða Íslands samanborið við önnur lönd í Evrópu þegar litið er til svifryksmengunar. Tafla/Umhverfisstofnun Evrópu



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert