Allir að tala og vinna þvers og kruss

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég er algjörlega ósammála Birni Zoëga þegar hann segir að spítalinn sé ekki vanfjármagnaður. Ég held aftur á móti að það sé fullt af öðrum vandamálum á Landspítalanum en fjárskortur og vafasamt að moka meira fé í spítalann fyrr en búið er að leysa þau vandamál.“

Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Hann segir að það kunni að þurfa fé til þess að leysa ýmis vandamál, en fyrst þurfi að finna lausnina og svo fjármagna hana. Það séu alls kyns vandamál innan spítalans.

„Ég tek undir með fjármálaráðherra, ég tek undir með Birni og ég tek undir með Runólfi. Það eru mörg önnur vandamál sem eru brýnni og þarf að leysa áður en við veitum meira fé inn á spítalann.“

Dæmi um þau séu skipulagsvandi, lélegur starfsandi og starfsmannavandi.

„Allt annað í rusli“

 „Það er svolítið flókið að hella pening inn þar sem hann nýtist illa, því það er allt annað í rusli.“

Kári tekur sem dæmi byggingu nýja spítalans. „Hún hefur ekki tafist af fjárskorti. Í lok síðasta árs voru til reiðu tíu milljarðar króna, sem spítalanum tókst ekki að nýta í viðbygginguna. Það má vel vera að þetta sé eins í rekstri spítalans, að þú þurfir að leysa rekstrarvandann áður en þú getur almennilega nýtt það aukna fé sem starfsemin kallar á.“

Spítalinn í veseni þar til starfsandinn batnar

Erfitt virðist að byggja upp þann anda innan spítalans sem til þarf svo fólki þyki gaman að vinna þar, að sögn Kára.

„Þangað til fólki finnst gaman að vinna þar, verður spítalinn í veseni. það vantar þennan anda sem ríkir á vinnustöðum þar sem fólki finnst gaman að vera og finnst það leggja af mörkum til samfélagsins.“

Kári kveðst þó ekki hafa svörin á reiðum höndum, við þeirri spurningu hvernig sé best að byggja upp slíkan anda.

„Þegar ég vann á Landspítalanum fyrir 45 árum fannst mér gaman að vinna þar. Menn voru metnaðarfullir og þetta var stórkostlegur vinnustaður. Mér skilst að nú vanti aðeins þennan  metnað.“

Læknar þurfi að fá að blómstra sem fræðimenn

Vinnuumhverfið sé erfitt upp á spítala en þar starfi mikið af færum, hæfum og góðum læknum sem séu jafnframt góðir fræðimenn. Þeir þurfi að fá að blómstra sem slíkir. 

„Um leið og þú skapar gott vinnuumhverfi þá fer fólk að leita á vinnustaðinn. Þá þarf að borga launin sem kallar á aukið fjármagn. Það getur vissulega líka kallað á aukið fjármagn að skapa meira aðlaðandi umhverfi, til dæmist með því að uppfæra tækjabúnað og veita læknum tíma til að stunda vísindarannsóknir,“ segir Kári og bendir á að þar sem læknisfræðin sé best, séu læknarnir bæði læknar og vísindamenn á sama tíma. 

Kári spyr hvernig geti staðið á því að til verði svo margir og langir biðlistar. „Hvernig stendur á þessu? Við vorum með eins og hálfs árs bið eftir liðskiptaaðgerð. Afhverju setjast menn ekki niður og gera bara átak. Hvað kemur í veg fyrir það? Hvernig stendur á svona lélegri nýtingu á skurðstofum?“

Stjórnarformaður megi ekki grípa fram í 

Kári hefur mikið álit á Runólfi Pálssyni, forstjóra Landspítala. Hann segir spítalann hafa stórkostlegan forstjóra og kveðst hafa fulla trú á því að hann leysi vandann. 

„Það er óheppilegt að stjórnarformaðurinn [Björn Zoëga] sé að tjá sig eins og hann sé sá sem ræður.“

Forstjórinn á að stjórna frá degi til dags en stjórnarformaður, og stjórnin öll, á að hlúa að þeim rekstri, að mati Kára. „Ekki vera eins og rödd sem stendur upp og grípur fram í.“

Kári telur að fyrir hendi sé ágætis samvinna milli Runólfs og Björns og að þeir séu ágætis félagar, „en Bjössi hefur tilhneigingu til að fara í viðtöl og gefa út yfirlýsingar á hvatvísan hátt, án þess að samstilla sig við Runólf.“

Björn þurfi að gefa Runólfi svigrúm til að sinna sínu starfi „án þess að hella yfir hann yfirlýsingum sem stangast á við skoðanir Runólfs.“

Þessi samskiptabrestur er, að mati Kára, toppurinn á ísjakanum. „Um alla stofnunina eru menn að tala og vinna þvers og kruss. Þetta verður að leysa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka