Moka það sem aðrir geta ekki mokað

Þeir sem ekki treysta sér til að handmoka geta fengið …
Þeir sem ekki treysta sér til að handmoka geta fengið einkafyrirtæki í verkefnið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Snjómokstur í borginni hefur gengið hægar en oft áður vegna mikils snjómagns, þá sérstaklega ruðningur göngustíga þar sem lítil tæki ráða illa við snjóinn. Göngustígar í sumum hverfum hafa jafnvel ekkert verið ruddir frá því fór að snjóa fyrir jól.

En svo eru það svæðin sem eru ekki á snjómokstursáætlun borgarinnar: einkalóðir, bílaplön, bílastæði, innkeyrslur og fleira. Þar gerist ekkert nema íbúarnir sjálfir grípi til einhverra aðgerða.

Hægt að flytja á staðinn með kerru

Þá koma einkafyrirtæki sem bjóða upp á mokstursþjónustu til sögunnar. Helgi Róbert Stefánsson, verkstjóri hjá Rosaverk ehf., er einn þeirra sem hefur sinnt smærri mokstursverkefnum síðustu vikur.

„Við höfum verið að taka að okkur innkeyrslur og göngustíga, eins og í gær þá fór ég í upp í Grafarvog og tók meðfram blokk, göngustíg þar sem var klakabunki og fólk átti erfitt með að labba. Önnur tæki komast ekki að þessu að ráði,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.

Fyrirtækið er með tvær litlar gröfur, frá tveimur og hálfu tonni upp í sex tonn, sem hægt er að flytja á staðinn með kerru. Það er því auðvelt að koma vélunum fyrir á svæðum þar sem önnur tæki komast ekki.

Það getur verið hægara sagt en gert að moka innkeyrslur …
Það getur verið hægara sagt en gert að moka innkeyrslur og bílastæði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ruðningar leiðindavesen

Þeir hafa verið fengnir í alls konar verkefni sem tengjast snjónum.

„Það sem hefur verið algengt eru innkeyrslur að einbýlishúsum, raðhúsum og parhúsum. Þar sem hefur safnast saman snjór og fólk er búið að moka fyrir bílinn sinn og ekkert meira. Þá missir það kannski aðganginn að stæðinu sínu.

Svo er það þetta leiðindavesen þegar stóru tækin hjá bænum eða litlu dráttarvélarnar eru að taka göngustígana, þá koma þessir ruðningar, og þeir eru ekkert að taka frá,“ segir Helgi.

„Það sem við gerum er að við hreinsum innkeyrsluna, hreinsum þessa ruðninga frá og hreinsum alveg út á götu svo þú hafir gott aðgengi að bílaplaninu hjá þér.“

Að sögn Helga taka þeir einnig snjóinn með sér ef þeir geta ekki komið honum frá sér með öðrum hætti.

Ekki „brjálað“ að gera 

Aðspurður hvort mikið hafi verið að gera í slíkum verkefnum, segir hann það ekki hafa verið „brjálað“ og að þeir geti bætt við sig verkefnum.

Þá segir Helgi ekki áberandi meira að gera í snjómokstrinum í einhverju einu hverfi frekar en öðru. „Þetta er fólk hér og þar sem hringir og maður er svolítið á rúntinum á milli hverfa.“

Það eru bæði einstaklingar og húsfélög sem kaupa snjómokstursþjónustu, en Helgi segir fyrri hópinn þó aðalmarkhóp Rosaverks. Fjölbýlishúsum fylgi yfirleitt stærri bílaplön og þá henti stærri tæki betur. „Þá er fljótlegra og ódýrara að fá hjólaskóflur eða hjólagröfur í þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert