Súðavíkurhlíðinni lokað í kvöld

Súðavíkurhlíð, vegurinn á milli Súðavíkur og Ísafjarðar.
Súðavíkurhlíð, vegurinn á milli Súðavíkur og Ísafjarðar. mbl.is/Sigurður Bogi

Tekin hefur verið ákvörðun um að loka veginum á milli Ísafjarðar og Súðavíkur í kvöld vegna snjóflóðahættu. 

Lögreglan á Vestfjörðum tilkynnti um þessa ákvörðun í dag og í tilkynningunni kemur fram að aukin snjóflóðahætta sé í fjallinu. 

Ekki þykir ráðlagt að halda veginum opnum eftir að þjónustu Vegagerðarinnar lýkur og verður lokað klukkan 20 í kvöld. Á morgun verður tekin ákvörðun um hvenær vegurinn verður opnaður að nýju. 

„Flestir fjallvegir á Vestfjörðum eru lokaðir vegna hvassviðris og ofankomu. Vegfarendur eru hvattir, sem fyrr, til að athuga með veður og færð áður en lagt er af stað milli byggðakjarna.

Varðskipið Þór verður viðbragðsaðilum til halds og trausts á Dýrafirði meðan þetta gengur yfir,“ segir í tilkynningunni. 

Nánari upplýsingar um það verður hægt að afla í upplýsingasíma Vegagerðarinnar, 1777, eða á heimasíðu hennar.

Tvær leiðir eru til að komast landleiðina til Ísafjarðar eða Bolungarvíkur. Önnur þeirra er í gegnum Súðavíkurhlíðina og sú hefur verið algengari heilsársleið. Þegar vegurinn er lokaður hefur það því töluverð áhrif á svæðinu til dæmis í sambandi við vöruflutninga og ýmsa þjónustu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert