„Þetta er gaman sem misferst“

Mynd frá hátíðinni og Haraldur Pálsson, framkvæmdastjóri ÍBV.
Mynd frá hátíðinni og Haraldur Pálsson, framkvæmdastjóri ÍBV. Samsett mynd

Framkvæmdastjóri ÍBV biðst velvirðingar á tröllunum tveimur, sem voru hluti af skrúðgöngu þrettándagleði Vestmanneyinga. Annað var merkt Eddu Falak og hitt var klætt í arabísk klæði og átti að tákna Heimi Hallgrímsson í þjálfarastarfi sínu í Katar. 

„Það er ekkert annað sem við getum gert núna. Skaðinn er skeður og við verðum að reyna að gera betur.“

Tröllin hafa til margra ára verið kennd við Heimi og Páleyju Borgþórsdóttur, frá því að hún tók við embætti lögreglustjóra í Vestmannaeyjum.

„Annar hópurinn ákvað greinilega að stíga þetta skref í ár án okkar vitundar, að merkja Páleyju sem Eddu Falak með uppnefni og háði. Við sem íþróttafélag viljum ekki standa á bak við neitt slíkt,“ segir Haraldur Pálsson, framkvæmdastjóri ÍBV. 

Úr myndbandi frá þrettándagleðinni.
Úr myndbandi frá þrettándagleðinni. Skjáskot

Hver ber ábyrgð á sínu trölli

ÍBV stendur fyrir þrettándagleði ár hvert. Í fleiri áratugi hefur tíðkast að íbúar mæti með tröll á gleðskapinn, sem eru hýst í geymslu á vegum ÍBV og dregin fram rétt fyrir þrettándann.

Tröllin eru á bilinu 80 til 90 talsins, að sögn tröllasmiðs sem mbl.is náði tali af. Hver tröllasmiður ábyrgist sitt eigið tröll. 

Tvö þessara trölla eru stærri en hin tröllin og að baki þeim stendur hópur nokkurra tröllasmiða. Það voru einmitt tröllin sem, í ár, táknuðu Eddu Falak og Heimi Hallgrímsson. 

Hópurinn að baki tröllunum tveimur er fólk á aldrinum 18 til 30 ára, en Haraldur kveðst ekki vita nákvæmlega hvernig hóparnir eru settir saman.

Haraldur bendir á að tröllin séu í einkaeigu, það eigi sér ekki stað nein miðstýring og því hafi ekki verið um að ræða ákvörðun ÍBV. „Við erum samt auðvitað að halda þesa hátíð og eigum að passa að svona gerist ekki.“

Gaman sem misferst

Spurður hvort það hafi ekki komið til álita að taka merkinguna af tröllinu áður en hátíðin hófst, segir hann skipuleggjendur ekki hafa tekið sérstaklega eftir henni. Hefðu þeir gert það hefðu það sennilega verið bestu viðbrögðin. 

Á þrettándagleðinni sjálfri varð Haraldur ekki var við viðbrögð Eyjamanna yfir tröllunum. Hann kveðst sjálfur hafa verið þar kominn til að njóta hátíðarinnar með börnunum sínum. 

„Þetta er gaman sem misferst,“ segir Haraldur, inntur eftir því hvaða merkingu það hafi þegar tröll þrettándagleðinnar eru kennd við nafngreinda, þjóðþekkta einstaklinga. 

„Það er samt erfitt að svara því nákvæmlega hvað þetta þýðir. Ég hef ekki verið í þessum tröllahópi sjálfur. Ég er viss um að þetta hafi verið meira til gamans gert en það er leiðinlegt þegar það særir aðra.“

Máli sínu til stuðnings bendur Haraldur á að Edda Falak hafi verið kölluð Edda Fúlegg í áramótaskaupinu. „Það var líka bara grín.“

„Ég bið Eddu bara afsökunar á þessu.“

Fremur auðkenning en rasismi

Varðandi tröllið í arabísku klæðunum, telur Haraldur of djúpt í árina tekið að halda því fram að þar hafi verið rasískur undirtónn. 

„Er þetta ekki frekar auðkenning? Eyjamenn eru stoltir af Heimi og setja hann í landsliðstreyjuna þegar landsliðinu gekk vel. Svo er hann núna í þessum arabaklæðum sem mér þykja bara falleg föt, því hann fékk þjálfarastarfið í Katar. Ég held að þetta sé frekar bara leið til þess að tengja saman manninn við starfsvettvanginn.“

Hér má sjá tröllið sem átti að tákna Heimi Hallgrímsson …
Hér má sjá tröllið sem átti að tákna Heimi Hallgrímsson þjálfara. Skjáskot
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert