Flateyrarvegi í Önundarfirði verður lokað klukkan 20 í kvöld samkvæmt tilkynningu frá Lögreglunni á Vestfjörðum.
Er það gert af öryggisástæðum vegna snjóflóðahættu fyrir ofan veginn. Fyrr í dag var tilkynnt um að veginum á milli Súðavíkur og Ísafjarðar yrði lokað í kvöld klukkan 20 vegna snjóflóðahættu.
Í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að athugað verði klukkan 7 í fyrramálið hvort óhætt sé að opna veginn til Flateyrar á ný.
Varðskipið Þór verður viðbragðsaðilum til halds og trausts í Dýrafirði.
Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Vegagerðarinnar eða í upplýsingasíma hennar, 1777.