Lögregla kölluð til þegar snjór féll af þaki á fólk

Þungur snjór féll á vegfarendur samkvæmt dagbók lögreglunnar.
Þungur snjór féll á vegfarendur samkvæmt dagbók lögreglunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óskað var eftir aðstoð lögreglu í miðbænum en þar hafði töluvert af snjó fallið ofan af húsþaki og lent á gangandi vegfarendum sem gengu þar undir er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þar segir að minni háttar áverkar hafi orðið á andlitum tveggja vegfarenda en ekki hafi verið talin ástæða til að flytja þá á bráðamóttöku til skoðunar.

Þá var tilkynnt um ofurölvi einstakling á veitingastað í hverfi 105 í gærkvöldi. „Einstaklingurinn var með truflandi áhrif á starfsemi veitingastaðarins. Einstaklingurinn handtekinn og er hann vistaður í fangaklefa þar til rennur af honum, en ekki var hægt að tala við hann sökum ölvunar,“ segir í dagbók lögreglunnar. 

Einnig var tilkynnt um rán í verslun í hverfi í miðbæ Reykjavíkur. „Einn einstaklingur handtekinn á vettvangi og er hann vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.“

Auk þess var nokkuð um að bifreiðar væru stöðvaðar þar sem ökumenn reyndust undir áhrifum vímugjafa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert