„Vonir okkar standa til að allur snjómokstur verði kominn á áætlun í þessari viku,“ segir Eiður Fannar Erlendsson, yfirmaður vetrarþjónustu hjá Reykjavíkurborg.
Snjó kyngdi niður á höfuðborgarsvæðinu rétt fyrir jólin. Mjög mikil ofankoma á skömmum tíma og slæmar aðstæður til snjómoksturs vegna veðurs gerðu að verkum að mokstur í borginni gekk hægar en oft áður. Eiður segir að mokstur sé farinn að ganga ágætlega.
„Það hefur gengið ágætlega að halda stofnbrautum og tengibrautum í horfinu og er mokstur á áætlun í þeim þjónustuflokki. Það hefur gengið hægar að eiga við íbúðagötur og göngustíga en við reiknum með að sá þjónustuflokkur verði kominn á áætlun í þessari viku.“
Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri umferðferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að vissulega hafi lögreglan orðið vör við ástandið.
„Þetta er búið að vera erfitt ástand en það er að skána. Við megum ekki gleyma því að nóvember var okkur með eindæmum góður. Við fáum svo þessa holskeflu hér í desember, mikið snjómagn á stuttum tíma sem er erfitt viðureignar þeim sem sinna hálkuvörnum.“
Árni segir að þessu ástandi fylgi auðvitað óhöpp.
„Óhöppum fjölgar en umferðin verður óneitanlega hægari og þannig verða færri slys á fólki.“
Árni segir það hafa breytt miklu fyrir lögreglu þegar tryggingafélögin fóru að gera út þjónustu árekstur.is, sem sinnir þeim umferðaróhöppum þar sem ekki eru slys á fólki. Hann segir það hafa orðið löngu tímabært.
Stærri snjómoksturstæki eiga oft ekki hægt um vik í þrengri íbúðagötum og oft ráða minni tæki ekki við snjómagnið. Því getur mokstur við slíkar aðstæður oft verið snúið verkefni. Háir hryggir hafa myndast víða í íbúðagötum en Eiður segir að það sé farið að vinna á þeim einnig.
„Við höfum verið að moka ruðningum upp á bíla og keyra í burtu ef það er ekki pláss fyrir snjóinn í grennd.“
Árni segist ekki merkja fleiri óhöpp en undanfarin ár en hann segir reyndar að lögregla hafi orðið vör við fleiri hálkuslys hjá fótgangandi og þeim sem fara um göngustíga á einhvers konar farartækjum.
„Snjómagnið var svo mikið og þá er okkur Íslendingum að fjölga og höfuðborgarsvæðið að stækka.“
Árni vill að lokum minna fólk á að passa upp á hraðann í umferðinni.
„Við vorum að sjá um helgina að hraðinn er að aukast í umferðinni en stofnbrautakerfið er að verða tiltölulega greiðfært. Lögreglan er aftur farin að stöðva fólk fyrir of hraðan akstur. Við þurfum að muna að leyfilegur hámarkshraði miðast við bestu mögulegu aðstæður. Það eru alls ekki bestu aðstæður í minni götum. Höfum það hugfast.“