Taxtalaun nái kaupmáttarrýrnun til baka

Efling hefur gert Samtökum atvinnulífsins gagntilboð sem gildir til morguns.
Efling hefur gert Samtökum atvinnulífsins gagntilboð sem gildir til morguns. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stéttarfélagið Efling gerir það meðal annars að samningsforsendu í gagntilboði sínu til Samtaka atvinnulífsins að taxtalaun hækki nægjanlega til að ná til baka kaupmáttarrýrnun frá síðustu launahækkun í fyrravor og til að tryggja kaupmátt taxtalauna miðað við núverandi og vænta verðbólgu á samningstímanum.

Hljóðar gagntilboðið upp á kjarasamning til 15 mánaða og tekur til aðalkjarasamnings og samnings um störf á hótelum og veitingahúsum. Þá fer Efling fram á að hlutdeild launa í hagvexti og góðri afkomu fyrirtækja sé tryggð og að samningurinn sé raunverulegt framhald lífskjarasamningsins með því að hækkanir lægstu launa og taxtalauna séu ekki miklu lægri en hækkanir þeirra sem ofar eru í launastiganum.

Enn fremur krefst stéttarfélagið þess að tillit sé tekið til hás húsnæðiskostnaðar á samningssvæði þess, svo sem 45 prósent hærri leigukostnaðar en á landsbyggðinni. „Tekið sé tillit til samsetningar félagsmannahóps Eflingar, þar sem meðalstarfsaldur hjá sama fyrirtæki er allt annar og skipting milli atvinnugreina önnur en á landsbyggðinni,“ segir í gagntilboðinu.

Gildistíminn 15 mánuðir

Miðar tilboðið við að samningurinn gildi frá 1. nóvember og afturvirkar hækkanir greiðist með næstu launaútborgun. Gildistími sé til janúarloka 2024 eða 15 mánuðir sem fyrr segir. Ný launatafla taki gildi við upphaf samningstíma og sé þar unnið út frá kostnaðarmati launatöflu í kjarasamningi SA við Starfsgreinasambandið.

Fyrsta starfsaldursþrep verði 18 mánuðir í stað eins árs og bætist framfærsluuppbót að upphæð 15.000 krónur miðað við fullt starf ofan á öll laun frá upphafi samningstíma. Uppbótin sú standi utan við grunnlaun og reiknist ekki inn í vakta- og yfirvinnuálög.

Hækkun grunnlauna þeirra sem ekki eru á kauptöxtum verði 33.000 krónur en hagvaxtarauki sem áður var ráðgert að bættist ofan á laun frá og með apríl á þessu ári falli niður. Þá fer Efling fram á að desemberuppbót, orlofsuppbót og bónusar og akkorð í fiskvinnslu hækki með sama hætti og í samningi SA við SGS sem undirritaður var 3. desember.

Taxtahækkanir grunnlauna lægst 40.000 krónur

Störf og röðun þeirra í launaflokka taki samkvæmt gagntilboði Eflingar eftirfarandi breytingum: „Heiti starfsins Almennt starfsfólk veitinga- og gistihúsa breytist í Almennt starfsfólk veitingahúsa. Launaflokkur breytist ekki. Bætt við starfinu Almennt starfsfólk gistihúsa sem raðast í launaflokk 6. Ræsting færist úr launaflokki 6 í launaflokk 7. Tækjastjórnandi I færist úr launaflokki 10 í launaflokk 12. Tækjastjórnandi II færist úr launaflokki 13 í launaflokk 15. Hópbifreiðastjórar færist úr launaflokki 17 í launaflokk 19.“ Verði samsvarandi breytingar í sérkjarasamningum þar sem sömu störf koma fyrir.

Hæsti virki launaflokkur í almennum kjarasamingi verði 19 í stað 17 áður, taxtahækkanir grunnlauna í krónum verði lægst 40.000 kr. (byrjandi í lfl. 4) og mest 64.534 kr. (hópbifreiðastjóri með 5 ára starfsaldur) sem að sögn Eflingar er innan ramma þeirra hækkana sem samið hefur verið um við aðra hópa í nýliðnum kjarasamningum. Lægsta hlutfallshækkun grunnlauna í töflu verði 10,89% (byrjandi í lfl. 4) og sú hæsta 16% (hópbifreiðastjóri með 5 ára starfsaldur, sem hækkar um tvo launaflokka).

Tilboðið gildir til morguns

Þá samþykkti Efling eftirfarandi bókun varðandi störf trúnaðarmanna í samninganefnd: „Aðilar eru sammála um að störf í samninganefnd falli undir þau störf trúnaðarmanna sem þeir hafa heimild til að sinna án launaskerðingar sbr. grein 13.2 í aðalkjarasamningi.“

Gagntilboð Eflingar gildir til hádegis á morgun, þriðjudaginn 10. janúar, og tekur félagið að lokum fram að hafni SA tilboðinu sem grundvelli frekari viðræðna muni Efling lýsa viðræður árangurslausar og hefja undirbúning verkfallsaðgerða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka