Fjórir karlmenn hafa verið ákærðir af embætti héraðssaksóknara fyrir sérstaklega hættulegar líkamsárásir á nýársnótt fyrir þremur árum í Reykjanesbæ. Þá er einn mannanna ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa stungið annan fimm sinnum með vasahníf. Er annars vegar um að ræða tvo menn um fertugt og tvo menn sem eru rúmlega tvítugir.
Samkvæmt ákærunni virðist hafa komið til slagsmála milli þessara tveggja hópa og eru allir mennirnir ákærðir fyrir þátttöku í þeim. Er einn hinna eldri ákærður fyrir að hafa ítrekað lagt til annars þess yngri með vasahníf með 6,3 cm löngu blaði. Sem fyrr segir hlaut sá fimm stungusár, þar af eitt sem náði inn í kviðarholt í gegnum milta svo fjarlægja þurfti miltað. Þá olli önnur stunga loftbrjósti.
Eldri mennirnir voru jafnframt ákærðir fyrir árás gegn hinum yngri manninum með því að hafa ítrekað slegið hann með glerflösku og hnefahöggum í höfuðið og er sá sem beitti hnífnum einnig ákærður fyrir að hafa sparkað og reynt að stinga hann líka. Hlaut hann ýmsa áverka af þessu og 2-3 grunna skurði á fingrum.
Sá yngri sem hlaut vægari skurðsár er þá ákærður fyrir að hafa ítrekað slegið eldri manninn sem ekki var með hnífinn ítrekað með glerflösku og hnefahöggum í höfuðið. Hlaut sá ýmsa áverka af árásinni.
Eru svo báðir yngri mennirnir ákærðir fyrir að hafa veist að hnífamanninum og ítrekað slegið hann með bæði glerflöskum og hnefahöggum í höfuð og búk. Hlaut hann einnig ýmsa áverka og eymsli vegna þessa.
Allir fara þeir fram á að fá greiddar bætur í málinu. Sá sem var stunginn ítrekað fer fram á 4,4 milljónir frá hnífamanninum. Hinn yngri maðurinn fer fram á 1,5 milljónir frá þeim eldri.
Hnífamaðurinn fer jafnfram fram á 1,6 milljónir frá þeim hann stakk og 600 þúsund frá hinum yngri manninum. Hinn eldri maðurinn fer hins vegar fram á að annar yngri maðurinn greiði honum 1,5 milljónir.