Útilaug Sundhallar Selfoss var opnuð í dag eftir að hafa verið lokuð í rúman mánuð. Enn eru heitir pottar og vaðlaugar lokaðar á útisvæði. Sunnlenska greinir frá.
Aðgerðaáætlun hjá Selfossveitum var virkjuð 8. desember eftir að tjón varð á búnaði í bruna sem skerti orkuöflun og var Sundhöll Selfoss lokað sama dag. Innisvæðið í sundhöllinni var opnað 11. desember og hefur verið opið síðan.
Veitustjóri Selfossveitna, Sigurður Þór Haraldsson, sagði í síðustu viku í samtali við mbl.is að opnun útilaugarinnar væri ekki í sjónmáli og vonaðist hann til þess að ekki þyrfti að fara í frekari þjónustuskerðingar.