Verkfall núna ekki skynsamlegt

Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, telur ekki skynsamlegt að fara …
Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, telur ekki skynsamlegt að fara í verkfall. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, telur að félagsmenn séu ekki spenntir fyrir verkfalli. Hún telur Samtök atvinnulífsins hafa verið nokkuð skýr, ekki verði lengra komist í  kjaraviðræðunum.

Efling mun lýsa viðræðurnar árangurslausar, hafni SA gagntilboði Eflingar í grundvallaratriðum. Línur munu skýrast á sáttafundi á morgun kl. 11.00.

„Ég held að verkfall núna sé ekki skynsamlegt,“ segir Ólöf og bætir við: „Sem manneskja á almenna vinnumarkaðnum, sem vinnur samkvæmt þessum samningum, myndi ég vilja sjá okkur taka við þessum samningi og byrja á næsta samningi.“

Komi til verkfallsaðgerða verður kosið um það hjá hlutaðeigandi félagsmönnum.

Þýði ekki að sitja heima í viku

„Það er meira en að segja það að fara í verkfall. Það getur þýtt meira álag og starfsfólk gæti einfaldlega þurft að hlaupa hraðar. Verkfall er ekki alltaf verkfall. Það þýðir ekki að þú sért heima hjá þér í viku. Við gætum þurft að vera í hlutaverkföllum,“ segir Ólöf og tekur sem dæmi að fólk mæti þá í vinnuna, er til hádegis og leggur niður störf til fjögur. Staðan sé flókin.

„Það er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir hvað það þýðir að fara í verkfall. Þetta eru sjóðir félagsmanna og þetta eru stuttir samningar. Samtök atvinnulífsins hafa verið mjög skýr. Það er ekki það að við ættum ekki að reyna meira. En fyrir skammtímasamning þá er þetta ekki hræðilegt að mínu mati. Við viljum að sjálfsögðu alltaf meiri launahækkun og eitthvað meira en nú er kominn tími til að horfa til næstu samninga.“

Störukeppni milli Eflingar og SA – tilboð renna út á morgun

Spurð hvernig samninganefndinni hugnist verkfallsaðgerðir segir Ólöf:

„Ég veit að samninganefndin getur ekki talað fyrir allt félagsfólk Eflingar. Ég er á almenna vinnumarkaðnum og ég væri tilbúin að skrifa undir þennan samning. Þótt maður vilji eitthvað meira.“

Skoða þurfi allt og samninganefndin hafi til að mynda ekki verið tilbúin til þess að koma með tillögur innan þess sem SA hafa lagt fram. Hún er þeirrar skoðunar að ekki verði lengra komist í viðræðunum.

Hafni Efling tilboði SA verða launagreiðslur ekki afturvirkar til nóvembermánaðar að sögn Ólafar. Öðru gæti þó gegnt um tilboðið hafni félagsmenn að fara í verkfall. Tilboð SA rennur út þann 11. janúar en gagntilboð Eflingar gildir til hádegis á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka