Andlát: Jónas Elíasson

Dr. Jónas Elíasson.
Dr. Jónas Elíasson.

Dr. Jónas Elíasson, prófessor emeritus, lést á líknardeild Landspítalans sunnudaginn 8. janúar sl., 84 ára að aldri.

Jónas fæddist á Bakka í Hnífsdal 26. maí 1938 og var elstur fimm systkina. Hann útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1956 og lauk fyrrihlutaprófi frá Verkfræðideild Háskóla Íslands árið 1959. Hann lauk MS-prófi (cand. polyt.) frá DTH (nú DTU) í Kaupmannahöfn 1962 og doktorsprófi (lic. techn.) frá sama háskóla árið 1973.

Jónas vann sem sérfræðingur hjá Laboratoriet for Havnebygning 1962-1964 í Kaupmannahöfn og sem lektor við DTH 1970-1973. Árin 1964-1965 starfaði Jónas hjá Vita- og hafnamálaskrifstofunni og Raforkumálaskrifstofunni 1965-1970. Að doktorsprófi loknu 1973 var hann ráðinn prófessor við Verkfræði- og raunvísindadeild og starfaði við Háskóla Íslands fram að eftirlaunum árið 2008, utan áranna 1985-1987 þegar hann var aðstoðarmaður iðnaðarráðherra. Eftir að Jónas fór á eftirlaun 2008 var hann rannsóknaprófessor við Jarðskjálftamiðstöð Háskóla Íslands á Selfossi, kennari við RES – Háskólann á Akureyri og prófessor við Kyoto-háskóla í Japan. Hann var leiðbeinandi fjölda doktors- og meistaranema og átti mikinn þátt í að byggja upp fræðasvið sitt við HÍ sem og að þróa nám við umhverfis- og byggingarverkfræðideild.

Jónas var alla tíð virkur í félagsstörfum. Hann var meðal annars formaður Norræna vatnafræðifélagsins 1974-1976, sat í framkvæmdaráði Reykjavíkurborgar 1978-1982 og hafnarstjórn Reykjavíkur 1982-1993. Hann var m.a. formaður stjórnar Orkustofnunar 1985-1988 og stjórnarformaður Jarðborana á árunum 1987-2000.

Af öðrum áhugamálum Jónasar má nefna skák og bridds. Hann gegndi einnig ýmsum trúnaðarstörfum innan Sjálfstæðisflokksins.

Jónas kvænist Ásthildi Erlingsdóttur (f. 1938, d. 1993) árið 1961 og saman eignuðust þau tvö börn; Helgu Guðrúnu og Erling Elías. Eftirlifandi sambýliskona Jónasar er Kristín Erna Guðmundsdóttir og eiga þau soninn Guðmund Arnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert