Andrúmsloftið versnar við hafnirnar

Skemmtiferðaskip við Reykjavík.
Skemmtiferðaskip við Reykjavík. mbl.is/Hákon

„Þetta er svo sannarlega talsverð aukning og sennilega metár,“ segir Þor­steinn Jó­hanns­son, sér­fræðing­ur í loft­gæðum hjá Um­hverf­is­stofn­un, í sam­tali við mbl.is um væntanlega fjölgun skemmtiferðaskipa í íslenskum höfnum á þessu ári og mengun sem þeim fylgir.

Mengun skemmtiferðaskipa í höfnum Reykjavíkur fyrir þremur árum var á við mengun eins níunda hluta bílaflota höfuðborgarsvæðisins, en eins og Þorsteinn segir þá verður það hlutfall líklega talsvert hærra í ár. 

„Þetta eru svo stór skip og stórar vélar. Sum miklu stærri en flutningaskipin og mengunin því í samræmi við það. Þessi aukning í skemmtiferðaskipum og allt sem fylgir farþegunum þýðir auðvitað aukið álag á innviði,“ segir hann og bætir við að ferðamennirnir þurfi svo farartæki þegar komið er í land sem gefi flest frá sér útblástur.

Þá losi skemmtiferðaskipin einnig úrgang í hverri höfn.

Losuðu um 37% af nituroxíð

Hann nefnir að heildstæð gögn vanti um mengun skemmtiferðaskipa í öllum höfnum landsins en þó séu til góð gögn frá Faxaflóahöfnum þar sem flest skipin koma. 

Samkvæmt greiningu Ferðamálastofu munu 277 skemmtiferðaskip koma í Faxaflóahafnir á þessu ári en árið 2019, fyrir heimsfaraldurinn, voru þau 190. 

Þorsteinn nefnir að árið 2019 hafi skemmtiferðaskipin losað um 37% af nituroxíði (NOx) sem losnaði í Faxaflóahöfnum. 

Noxið, eins og það er nefnt í daglegu tali, mengar mikið og kemur meðal annars frá útblæstri bíla og skipa. 

„Ef maður skoðar gögn bara fyrir Reykjavíkurhafnirnar [Sundahöfn og Gamla höfnin] þá eru það 261 tonn af noxi árið 2019. Meðan öll skipin í Reykjavíkurhöfnunum voru að losa 715 tonn,“ segir Þorsteinn og bætir við að því eigi mengun af noxi eftir að aukast hlutfallslega eftir fjölgun skemmtiferðaskipa. 

Þorsteinn Jóhannsson, sér­fræðing­ur í loft­gæðum hjá Um­hverf­is­stofn­un.
Þorsteinn Jóhannsson, sér­fræðing­ur í loft­gæðum hjá Um­hverf­is­stofn­un. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mega ekki nota svartolíu við landsteinanna

Spurður hvort nýrri skip og ný tækni sem fylgi þeim mengi minna segir hann svo vissulega vera. 

Þorsteinn nefnir að ekki megi nota svartolíu er skipin eru komin inn fyrir mengunarlögsögu landsins. Áður máttu þau nota svartolíu þar til þau lögðust að bryggju. Nú sé því notuð venjuleg skipadíselolía er skipin eru við landið. 

Það að skipin noti ekki svartolíu við landsteinanna þýðir minni brennisteinsmengun og minna af fínu svifryki. 

„Mörg þessi skip eru komin með svokallaðan scrubber, eða vothreinsibúnað, þannig að þau hreinsa brennisteinsútblásturinn.“

Skiptir máli hvar er losað 

Spurður hvort loftgæðin verði verri er skemmtiferðaskipum fjölgar segir Þorsteinn að áhrifanna muni helst gæta á svæðum næst höfnunum. 

„Einn til þrír kílómetrar næst höfnunum eru helst útsettir.“

Hann minnist á að mengunin sem öll skip losa í höfninni sé svipuð og allir bílar á höfuðborgarsvæðinu. 

„Þarna gilda þó önnur lögmál heldur en með gróðurhúsaloftegundir. Fyrir gróðurhúsaloftegundir skiptir ekki máli hvar í heiminum þær eru losaðar, það er magnið sem skiptir máli. En fyrir svona loftmengunarefni eins og nox þá skiptir miklu máli hvar það er losað og í hvaða hæð.“

Í því samhengi nefnir Þorsteinn að almenningur andi miklu frekar að sér noxmengun frá útblæstri bíla heldur en útblæstri skipa. Skipin séu há og með strompa hátt uppi og því dreifist mengunin betur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka