Fatta ekki að þessir hlutir eru byrði

„Þetta er stórt skref, að losa sig við eitthvað sem fólk hefur keypt og eytt pening í. Það eru ekki allir til í það. Það er erfitt fyrir marga þó þeir vilji,“ segir Sóley Ósk Hafsteinsdóttir, eigandi verslunarinnar Heimaskipulags, í Dagmálum, viðtalsþætti Morgunblaðsins. Þar ræddi hún um meðal annars um ráð til að skipuleggja heimilið, matarinnkaupin og hvernig hún og fjölskylda hennar hafa náð byggja hús, safna fyrir íbúðum, ferðalögum og áhyggjulausu lífi, hvað peninga varðar, með því að kaupa ekki óþarfa og hugsa vel um peningana sína.

Sóley mælir með því að fólk, sem vill einfalda lífið á heimilinu, losi sig við óþarfa hluti. Þá er til dæmis hægt að nýta daga mánaðarins sem hvatningu en hún hefur áður tekið verið með áskorun hvað þetta varðar á instagramsíðu sinni. 

Ónýtir pennar og götóttir sokkar leynast víða

„Þegar þú ert kominn í 31. janúar ertu að losa þig vit 31 hlut. Það virðist vera svolítið mikið en það er samt ekki mikið. Ef þú kíkir í draslskúffuna eru örugglega tíu pennar og virka ekki einu sinni. Eða fullt af sokkapörum sem eru bara ónýt eða götótt, eða fullt af gömlum vettlingum. Það er fullt af dóti sem fólk fattar ekki að er byrði heima hjá sér,“ segir Sóley.

Hér má nálgast viðtalið í heild sinni.

„Sumir vilja ekki losa sig við dót og það er allt í lagi. En þá getur það ekki kvartað að það sé of mikið fyrir heimilið,“ segir Sóley sem mælir með því að fólk skipti hlutum í þrjá flokka þegar það vill létta á heimilinu með því að losa við hluti sem ekki eru í notkun; Eiga, Er ekki viss og Út með þetta!

Í síðasta flokknum má flokka hlutina í Rusl, Það sem fer á nytjamarkað og Það sem vinir eða vandamenn geta nýtt sér. 

Hefur þú eitthvað að gera við þetta?

„Það sem þú ert ekki viss með, það má fara í geymslu í smá stund. Eða upp í efri skápa,“ segir Sóley.

„Svo eftir ákveðinn tíma ferðu í gegnum þetta: Hefur þú einhvern tímann þurft að nálgast þessa hluti? Viltu nálgast þá? Hefur þú eitthvað að gera við þetta? Getur einhver notar þetta? Er þetta ónýtt?

Þá ertu allavega búinn að fá tíma til að hugsa þig um hvort þú viljir losa þig við eða ekki,“ segir Sóley sem bendir á að það sem er í notkun ætti að vera aðgengilegt. Það sem er í lítilli notkun ætti hins vegar ekki að vera fyrir því sem þú notar daglega.

„Jólakjóll sem þú notar einu sinni á ári – ekki eyða herðatré í það ef þú ert ekki með risa fataskáp,“ segir Sóley en hún geymir til að mynda sparifötin hjá sonum sínum tveimur í skúffu sem er minna notuð. 

„Þetta á ekki að vera fyrir leikskólafötum, eitthvað sem er notað daglega,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka