Hlé var gert á fundi Eflingar og Samtaka atvinnulífisins eftir um fimmtán mínútur en ríkissáttasemjari hyggst ræða við samninganefndir í hvoru lagi fyrir sig áður en lengra er haldið. Fundurinn hófst um klukkan fimmtán mínútur yfir ellefu og hlé var gert rétt rúmlega hálf tólf.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tjáði sig við blaðamenn fyrir fundinn og ítrekaði það sem hún hefur áður sagt, að ef tilboði Eflingar verði hafnað, sem grundvelli frekari viðræðna, þá verði viðræðurnar lýstar árangurslausar og undirbúningur verkfallsaðgerða hafinn.
Aðspurð sagðist hún ekki geta sagt til um hvort farið yrði í allsherjar- eða skæruverkföll kæmi til verkfallsaðgerða. Það væri samninganefndar að taka ákvörðun um það.
Hún sagðist jafnframt vera bjartsýn á að Efling næði góðum kjarasamningi sem hentaði Eflingarfélögum og að Efling hefði sýnt mjög einbeittan samningsvilja. Tilboð Eflingar til SA rennur út klukkan 12 á hádegi.
Hluti samninganefndar Eflingar kom fylktu liði á fundinn í merktum jökkum og með kröfuspjöld. Þegar hópurinn kom í Karphúsið hrópuðu þau:
„Hvað erum við?“
„Ómissandi!“
„Hvenær?“
„Alltaf!“
Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, sem á sæti í samninganefndinni kom þó ein á fundinn á eftir hópnum.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari sagði í samtali við mbl.is í morgun að staðan í kjaradeilu Eflingar og SA væri grafalvarleg og að hann hefði miklar áhyggjur af henni.