Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir það vonbrigði að Efling hafi slitið kjaraviðræðum og hefji nú undirbúning verkfalla. Það hafi verið óskynsamleg ákvörðun af hálfu Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, en hann dregur þá ályktun að það hafi verið markmið hennar frá upphafi að fara í verkföll.
Hann telur að Efling sé að verða hálfgert eyland sem eigi í útstöðum á mörgum vígstöðvum, en þegar fíflunum fjölgi sífellt í kringum mann sé tímabært að líta í spegil.
Sjálfur telur Halldór það ekki vilja félagsfólks Eflingar að fara í verkföll og glata þar með afturvirkni kjarasamninga frá 1. nóvember, en það tilboð er nú út af borðinu.
„Það var engin ástæða til að slíta þessum viðræðum. Við höfum talað mjög skýrt frá fyrstu mínútu þess efnis að við höfum nú þegar gengið frá kjarasamningi við 80 þúsund manns hringinn í kringum landið. Þeir stefnumarkandi kjarasamningar verða að vera grundvöllur kjarasamninga við alla okkar viðsemjendur, þar á meðal Eflingu,“ segir Halldór í samtali við mbl.is, en blaðamaður náði tali af honum í Karphúsinu eftir að viðræðum samninganefnda var slitið fyrr í dag.
„Markmið okkar er eftir sem áður að semja við Eflingu og við höfum sagt við Eflingu á samningafundum með ríkisáttasemjara, að við séum tilbúin að sýna útsjónarsemi og liðleika til að tryggja að samningurinn myndi passa þeim vel. En við gætum aldrei litað út fyrir þær línur sem búð var að marka í SGS-samningnum.“
Halldór segir að með nokkurri einföldun megi segja að kostnaður við það tilboð sem Efling gerði SA sé tæplega tvöfalt það kostnaðarmat sem samið hafi verið um við önnur félög.
„Sem er auðvitað óaðgengilegt og getur aldrei orðið grundvöllur að samningi við Samtök atvinnulífsins. Við værum að bregðast trausti viðsemjenda okkar ef við myndum samþykkja tilboðið.“
Spurður hvort samninganefnd SA hafi verið tilbúin að taka tilboð Eflingar til skoðunar og reyna að aðlaga sitt tilboð meira að kröfum þeirra, segir Halldór að reynt hafi verið að sýna eins mikinn sveigjanleika og útsjónarsemi og hægt var.
„Hins vegar geta Samtök atvinnulífsins aldrei samþykkt þá kröfu Eflingar að draga íslensku þjóðina í dilka eftir búsetu þar sem hærri laun eru greidd fyrir félagsmenn Eflingar í Reykjavík og reyndar líka í Þorlákshöfn, Hveragerði og Grafningshreppi. Við höfum sagt að yfir þá línu munum við ekki stíga og mér hefur fundist þetta, ég hef notað orðið ógeðfellda kröfu,“ segir Halldór.
Í gagntilboði Eflingar til SA, sem rann út á hádegi í dag, var gerð krafa um að sérstaða Eflingarfólks yrði virt að fullu, meðal annars vegna hærri framfærslukostnaðar á höfuðborgarsvæðinu.
Miðað við framgang mála í viðræðunum segist Halldór ekki geta annað en dregið þá ályktun, eftir að hafa hlustað á viðtöl við Sólveigu, að það hafi verið markmið hennar frá upphafi að fara með Eflingarfólk í verkföll. Þá hafi það komið honum á óvart að hluti samninganefndarinnar heyri ekki undir kjarasamninginn sem rætt er um.
„Ég hins vegar hnýt um það hér að hluti samninganefndarinnar, sem er að taka þessa afdrifaríku ákvörðun fyrir um 20 þúsund félagsmenn Eflingar á almennum vinnumarkaði, starfa ekki einu undir kjarasamningi Samtaka atvinnulífisins og eru starfandi hjá opinberum aðilum, borginni og öðrum. Mér er það stórkostlega til efs að það sé vilji meirihluta Eflingarfólks að fara þá leið sem Sólveig Anna ákveður hér í dag, að byrja að hefja undirbúning verkfalla,“ segir Halldór og bætir við að honum hefði þótt betri bragur að því að Efling hefði spurt félagsfólk sitt út í skoðun þess á samningi SA við SGS-félögin, sem hefði fengið um 80 til 90 prósent í kosningu þeirra félaga sem kusu um hann.
„Mín skoðun er sú að meirihluti Eflingarfélaga sé ekki tilbúinn að afsala sér afturvirkni kjarasamninga til 1. nóvember, sem óhjákvæmilega gerist þegar Efling slítur kjaraviðræðum og hefur undirbúning verkfalla. Þannig ég er mjög hugsi yfir mörgu sem hér hefur komið fram á fundum með Eflingu og ekki síður umboði samninganefndarinnar.“
Þannig afturvirknin er út af borðinu?
„Hún er út af borðinu. Punktur.“
Þannig það verður aldrei þannig að Eflingarfélagar fái afturvirkan samning til 1. nóvember?
„Því miður, vegna þess að afturvirkni er niðurstaða samtals um að kjarasamningur taki við af kjarasamningi. Við erum komin núna inn í nýtt ár og það er einfaldlega óskrifuð regla hjá Samtökum atvinnulífsins að það að boða aðgerðir, það myndi kosta þau afturvirkni á móti.“
Halldór gerir ráð fyrir að SA fái viðbrögð frá Eflingu um hvaða skref þau ætli að stíga og í hvaða tímaramma.
„Í beinu framhaldi þess munu Samtök atvinnulífsins nýta þá samhverfu sem er í vinnulöggjöfinni og meta heildstætt til hvaða aðgerða sé hægt að grípa til þess að tryggja trúnað okkar við þessa 80 þúsund einstaklinga sem hafa samþykkt þessa kjarasamninga. Og ekki síður hvernig við verjum hagsmuni okkar umbjóðenda, sem eru fyrirtækin í landinu, gagnvart þessari óbilgjörnu árás Sólveigar Önnu og Eflingar.“
Spurður hvort til greina komi að grípa til verkbanns segist hann hafa þá reglu að útiloka ekki neitt. Nú sé verið farið yfir sviðið og metið hvað Efling ætli að gera í sínu útspili. Ákvörðun um það verði svo tekin í framhaldinu.
Sjálfur telur hann ekki vilja í samfélaginu fyrir róstum á vinnumarkaði, en þá skoðun sína reisir hann á þeirri staðreynd að nánast sé búið að semja við allan almenna vinnumarkaðinn á sömu nótum og þær línur sem voru lagðar gagnvart stóru samflotunum fyrir jól.
„Á þeim grunni þá tel ég að Efling sé að verða einhverskonar eyland. Þau eiga í útistöðum við marga aðila í einu. Þau eiga í útistöðum við stjórnvöld, þau eiga í útistöðum við félagsdóm, þau eiga í útistöðum við eigið starfsfólk, þau eiga í útistöðum við fyrrum trúnaðarmenn á sama vinnustað og auðvitað við Samtök atvinnulífsins og nú ríkissáttasemjara heyrist mér,“ segir Halldór.
„Það er stundum sagt að þegar fíflunum í kringum mann fjölgi þá sé tímabært að líta í spegil.“