„Mikil vonbrigði“

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari hefur þungar áhyggjur af stöðu mála eftir …
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari hefur þungar áhyggjur af stöðu mála eftir að slitnaði upp úr viðræðum Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Já, þetta eru mikil vonbrigði, við erum á mjög erfiðum stað og ég hef þungar áhyggjur af þessari stöðu sem komin er upp,“ segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is um nýafstaðinn fund samninganefnda Eflingar og Samtaka atvinnulífsins sem lauk án nokkurs samkomulags og með undirbúningi verkfallsaðgerða Eflingar.

Segir Aðalsteinn samninga hafa náðst í húsnæði embættis hans um langstærstan hluta almenna vinnumarkaðarins þar sem stór hluti launafólks hafi fengið afturvirkar launahækkanir frá 1. nóvember. Eini hópurinn sem út af borðinu standi sé þá félagsfólk Eflingar sem ekki hafi fengið hækkanir.

„Þegar ekki næst takur í samtalinu og samtalið stefnir í átök hefur það áhrif á marga. Það hefur áhrif á félagsfólkið og fyrirtækin en það hefur líka áhrif á samfélagið í heild og þess vegna hef ég áhyggjur af þeirri stöðu sem nú er komin upp,“ heldur ríkissáttasemjari áfram.

Fækkar í verkfærakistunni

Hann kveðst ekki hafa boðað til nýs fundar samningsaðila enn sem komið er enda algjörlega óvíst á hvaða forsendum þá verði sest niður.

En mun Aðalsteinn boða nýjan fund engu að síður og reyna til þrautar?

„Auðvitað reyni ég allt sem ég get til að styðja þessa aðila í samkomulagsátt en ég verð að játa að það er farið að fækka verulega í minni verkfærakistu þegar kemur að því að aðstoða aðilana í þessari kjaradeilu,“ segir Aðalsteinn og kýs að tjá sig ekki um hvort kröfur Eflingar séu á einhvern hátt ósanngjarnar þegar hann er inntur eftir því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert