Reykjanesbær tekur á móti 350 flóttamönnum

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, ásamt fulltrúum sveitarfélagsins og beggja ráðuneyta að fundi loknum. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Reykjanesbær mun í samstarfi við stjórnvöld taka á móti allt að 350 flóttamönnum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, og Nichole Leigh Mosty, for­stöðukona Fjöl­menning­ar­set­urs, undirrituðu samning um samræmda móttöku flóttafólks í gær í Ráðhúsi Reykjanesbæjar. 

Samræmd móttaka flóttafólks nær til fólks sem fengið hefur alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi. Markmiðið er að tryggja flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur og í hvaða sveitarfélagi það sest að,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. 

Fjórði samningurinn

Þetta er fjórði samningurinn sem undirritaður er um samræmda móttöku flóttafólks á skömmum tíma. Auk Reykjanesbæjar hefur Reykjavík, Árborg og Akureyri undirritað samning við félags- og vinnumarksráðuneytið. 

Í kjölfar undirritunarinnar í Reykjanesbæ fundaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra með bæjaryfirvöldum ásamt Guðmundi Inga og fulltrúum beggja ráðuneyta. Greint var frá því hvernig sveitarfélagið tekur á móti flóttafólki og hver umgjörðin er. 

Ráðherrarnir funduðu jafnframt með bæjaryfirvöldum í Suðurnesjabæ og kynntu sér málefni fylgdarlausra barna á flótta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert