Formaður Eflingar telur ekki að verkfallsaðgerðirnar muni leiða til þess að Efling nái „lakari árangri en aðrir.“ Reynslan sýni hið þveröfuga, ef félagsfólk er reiðubúið að standa saman og berjast saman muni Efling ná betri árangri en aðrir.
„Reynsla okkar í Eflingu er sú að þegar að við höfum farið í raunverulega kjarabaráttuverkfallsaðgerðir, þá hefur niðurstaðan verið sú að við höfum fengið betri samninga en aðrir og það er ekkert sem gefur til kynna að svo verði ekki hér eins og áður,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sem telur þó ótímabært að svara spurningum um það hvernig staðan verði eftir margar vikur.
Samninganefnd Eflingar sleit í dag viðræðum við Samtök atvinnulífsins og er næsta skref að undirbúa verkfallsboðun sem félagsfólk mun greiða atkvæði um.
Að sögn Sólveigar var einhugur innan nefndarinnar um þá ákvörðun að slíta viðræðunum.
„Nefndin er búin að hittast oftar en tuttugu sinnum. Þar er mjög gott samstarf og við höfum einsett okkur það að vinna með þeim hætti og þegar að við tökum niðurstöðu þá er hún einróma.“