Stjórn ÍBV biðst afsökunar

Úr myndbandi frá þrettándagleðinni.
Úr myndbandi frá þrettándagleðinni. Skjáskot

Stjórn ÍBV hefur sent frá sér afsökunarbeiðni vegna merkingar á tröllskessu sem var hluti af skrúðgöngu á þrett­ándagleði Vest­manna­ey­inga.

Skessan var merkt áhrifa­vald­inum og hlaðvarps­stjórn­and­anum Eddu Falak, en á skessuna var ritað Edda Flak.  

„Skýrir verkferlar verða nú settir við undirbúning samkomunnar framvegis svo eitthvað þessu líkt endurtaki sig ekki,“ segir í tilkynningu á vef félagsins. 

„Við lærum af mistökum og heitum því að vanda vel til umgjarðar fagnaðarins á þrettánda degi jóla svo ekki falli þar skuggi á eins og gerðist nú, því miður.“

Reynt að biðja Eddu afsökunar

Þá segir að stjórnin hafi reynt að ná í Eddu vegna málsins til að biðja hana formlega afsökunar á athæfinu en hún vilji ekki heyra frá þeim. Stjórnin segist sýna því fullan skilning. 

„ÍBV fordæmir alfarið allt einelti, fordóma og ofbeldi af öllu tagi, nú sem endranær,“ segir að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert