Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, sem á sæti í samninganefndinni, er ósammála þeirri ákvörðun formanns félagsins að slíta viðræðum um nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins og hefja undirbúning verkfallsboðunar.
Þrátt fyrir að eiga sæti í samninganefndinni, samkvæmt lögum Eflingar, sem ritari stjórnar, hefur Ólöf ekki fengið að sitja á fundum eða taka þátt í vinnu nefndarinnar. Hún segir að þeir sem séu ósammála Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, hafi enga rödd innan félagsins.
„Ég er ósammála þessu. Ég tel mikilvægt á þessum tímapunkti að fara að vinna að næsta samningi sem verður langtímasamningur, þar sem stærri mál verða tekin fyrir. Nú erum við bara að tala um launaliðinn. Þó maður vilji alltaf meiri launahækkanir, þá skil ég það þannig að við komumst ekki lengra með það,“ segir Ólöf í samtali við mbl.is, en blaðamaður náði tali af henni í Karphúsinu eftir að viðræðum var slitið.
„Ég veit að fyrir mig persónulega þá munar alveg um 42 þúsund króna launahækkun sem er meðallaunahækkun sem félagsmenn Eflingar væru að sjá. Og þá erum við að tala um taxtahækkun. Ofan á það kemur vaktaálag og yfirvinna og allt það.“
Ólöf telur að þrátt fyrir að gripið verði til verkfallsaðgerða verði erfitt að ná samningum sem vega upp á móti því sem tapast með því að félagar í Eflingu missi af afturvirkni samninga til 1. nóvember, eins og önnur félög hafa samið um.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, hefur staðfest að það tilboð sé nú út af borðinu fyrir félagsfólk Eflingar.
„Ég held það verði rosalega erfitt að ætla að ná upp þessum þriggja mánaða launahækkunum á tólf mánaða tímabili. Við sjáum að það hlýtur að þurfa að vera mjög mikil launahækkun. Þess vegna tel ég okkur ekki komast mikið lengra. Ofan á það þá eru það sjóðir Eflingar sem borga fyrir verkföllin og það er mikið álag að fara í verkfall. Ég hef áhyggjur af þessu.“
Spurð hvort hún telji að Sólveig hafi nægan stuðning innan félagsins fyrir því að grípa til verkfallsaðgerða, segir hún erfitt að spá fyrir um það.
„Félagsmenn verða bara að kjósa, hvort sem það verður allt félagið eða ákveðinn hópur. Ef þér gefst kostur á því að kjósa um að fara í verkfall þá verðurðu að kjósa, því þetta hefur virkilega bein áhrif,“ segir Ólöf.
Sólveig sagði í samtali við fjölmiðla eftir að viðræðunum var slitið að samninganefndin hefði verið einhuga í að taka ákvörðun og það væri alltaf þannig.
Hún telur Ólöfu því augljóslega ekki með, enda hefur hún, líkt og áður hefur komið fram, ekki fengið að sitja fundi eða taka þátt í vinnu samninganefndar.
„Það hefur kannski komið skýrt fram, bæði í fjölmiðlum og innan veggja Eflingar, að ef þú ert ósammála Sólveigu þá ertu ekki velkomin. Ég er ein af mjög fáum sem hef séð ástæðu til að sætta mig við að vera útskúfuð og lögð í einelti. Það er talað illa um mig bæði opinberlega og hreytt í mig þegar ég geng framhjá fólki. Það er kannski ekki skrýtið að fólk finni ekki mikið fyrir þeim sem eru ósammála henni. Fólk hefur ekki áhuga á þessu.“