Verkföll gætu hafist eftir tvær vikur

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður SA í baksýn. mbl.is/Hákon

Verkföll félagsmanna Eflingar gætu í fyrsta lagi skollið á eftir tvær vikur. „Að því gefnu að stjórnarfundur Eflingar yrði í kvöld þar sem ákvörðun um vinnustöðvun og útfærsla á henni yrði tekin og samþykkt.“

Þetta segir Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands, í samtali við mbl.is.

„Strangt til tekið geta verið skollin á verkföll eftir hálfan mánuð. Ég held að raunhæfara sé að það sé nær þremur vikum. Við gefum okkar það að það taki kannski einhvern smá tíma að kalla saman stjórn og hún þarf kannski smá svigrúm til þess að ákvarða hvort og hvernig hún vilji gera hlutina.“

Halldór Oddsson lögfræðingur ASÍ.
Halldór Oddsson lögfræðingur ASÍ. mbl.is/Unnur Karen

Viðræðum slitið, hvað gerist núna?

Samn­inga­nefnd Efl­ing­ar sleit viðræðum sín­um við Sam­tök at­vinnu­lífs­ins í dag. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tilkynnti að næsta verkefni samninganefndar Eflingar væri að undirbúa verkfallsboðun.

Halldór segir að áður en lengra sé haldið þurfi stjórn Eflingar að taka ákvörðun um hvort boða eigi verkfall og með hvaða hætti það verði þá gert.

„Svo þarf sú tillaga að vera borin undir félagsmenn. Það fer aðeins eftir útfærslu hverjir það eru. Ef þetta eru allsherjarverkföll, blokkverkföll svokölluð, er þetta borið undir alla félagsmenn sem starfa samkvæmt kjarasamningnum,“ segir Halldór.

Verkföllin gætu einnig verið skæruaðgerðir eins og árið 2019 þegar Efling beindi  verkfallsaðgerðum að hótelunum. Þá greiddi hver hópur sem fór í verkfall atkvæði um þá tilteknu aðgerð.

„Fræðilega séð er alveg hægt að halda allsherjar atkvæðagreiðslu og greiða atkvæði meðal allra sem starfa samkvæmt kjarasamningnum, þó ekki séu allir að fara í verkfall.“

Vika til að kjósa og vika til að bregðast við

Halldór segir að samkvæmt reglugerðum og lögum Eflingar þurfi atkvæðagreiðsla innan félagsins að standa yfir í viku.

„Svo þarf að telja upp úr þeim kössum og þar dugir einfaldur meirihluti. Eðli málsins samkvæmt vilja menn helst hafa sem breiðasta samþykkt fyrir verkfalli,“ segir Halldór.

Í kjölfarið er vinnustöðum sem verkföllin beinast gegn tilkynnt um þær aðgerðir að því gefnu að þær séu samþykktar. Þá hafa þeir viku frest til að bregðast við því áður en verkföll skella á.

Stjórnarskrárvarinn réttur Eflingar 

Halldór segir að Efling sé að nýta sinn stjórnarskrárvarða rétt og eigi fullan rétt á því að gera það er hann er spurður um sína skoðun á mögulegum verkfallsaðgerðum.

„Ég held að félagarnir hjá Alþýðusambandinu og öðrum aðildarfélögum óski þeim góðs gengis,“ segir Halldór að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert