Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands (SGS), telur að tekjutap launafólks Eflingar gæti orðið allt að þremur milljörðum króna vegna þess að Samtök atvinnulífsins hafa tekið af borðinu tilboð um afturvirkar launahækkanir.
„Miðað við það að það séu einhverjir 21.000 manns sem heyra undir kjarasamninginn hjá Eflingu geta þetta verið upp undir þrír milljarðar í tekjutap. Ég veit svo sem ekkert hvernig niðurstaðan verður þegar þau ganga frá samningnum hvort því verður einhvern veginn mætt eða ekki,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is.
„Við erum náttúrulega búin að ganga frá okkar kjarasamningi sem var samþykktur með gríðarlega góðri niðurstöðu.“
„Það voru tæplega 24.000 manns á kjörskrá hjá Starfsgreinasambandinu í þessum kjarasamningum. Ef við horfum á þann tíma sem nú er liðinn frá því að samningurinn var gerður eru liðnir rúmir 2 mánuðir.
Ef okkur hefði ekki tekist að ganga frá kjarasamningi og við hefðum lent í því að fá ekki afturvirknina greidda, þá hefði það getað kostað okkar launafólk allt að þremur milljörðum ef við miðum við síðustu þrjá mánuði.“
„Ávinningurinn af okkar kjarasamningi var að láta þann gamla fjara út og þann nýja að taka strax við,“ segir Vilhjálmur.
Vilhjálmur segir um undirbúning verkfallsboðunar Eflingar að samningsréttur hvers stéttarfélags fyrir sig sé frjáls og réttur hvers stéttafélags fyrir sig sé að sækja sínar kjarabætur sem það telur sig eiga rétt á.
„Þannig að ég geri svo sem engar athugasemdir við það. Ég óska Eflingu velfarnaðar í sinni baráttu.“
Kemur til greina að fara í samúðarverkföll?
„Nei ég held að það sé algjörlega fráleitt einfaldlega vegna þess að við getum ekki farið í samúðarverkföll þegar okkar félagsmenn hafa gengið frá kjarasamningi og samþykkt þá með yfirgnæfandi meirihluta. Ég held það eigi alls ekki við.“