Með nýrri reglugerð Evrópusambandsins og Evrópuráðsins hefur Ísland, sem aðili að EFTA, verið gerður virkur þátttakandi í neyðar- og viðbragðsstjórnun Evrópusambandsins meðal annars með beinni hlutdeild í sameiginlegum innkaupum Evrópusambandsins á lyfjum, lækningavörum og öðrum mikilvægum heilbrigðisaðföngum ef heilbrigðisvá steðjar að, þvert á landamæri.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.
Þannig er staða landsins styrkt varðandi öflun, innkaup og afhendingaröryggi aðfanga þegar þjóðir þurfa að bregðast sameiginlega við heilbrigðisvá. Nærtækt dæmi um slíkar aðstæður er þegar Ísland þurfti milligöngu Evrópusambandsríkis til að tryggja bóluefni gegn Covid-19, en Svíþjóð tók að sér það hlutverk.
Með ákvæði 12. greinar hinnar nýju reglugerðar er Íslandi tryggð bein hlutdeild í sameiginlegum innkaupum ESB á heilbrigðisaðföngum vegna heilbrigðisvár ef á reynir, án skuldbindingar.