„Flateyringar eru alveg sultuslakir“

Steinunn Guðný ofan á skafli eftir flóðið í janúar 2020.
Steinunn Guðný ofan á skafli eftir flóðið í janúar 2020. mbl.is/RAX

Flateyringar eru alveg sultuslakir yfir þessu, þetta voru rosalega dramatískar fyrirsagnir sem ég sá áðan um þetta snjóflóð,“ segir Steinunn Guðný Einarsdóttir, íbúi á Flateyri, spurð hvernig hugur sé í Flateyringum eftir allstórt snjóflóð sem varð við þorpið í gærkvöldi. 

Eins og greint hefur frá féll snjóflóð í Miðhryggsgili innan við bæinn klukkan 23.12 í gærkvöldi og stöðvaðist um 40 metra ofan við veg að bænum.

Hafa ekki minnst á flóðið

Steinunn var á Akureyri þegar snjóflóðið varð í gær og kveðst hafa heyrt fyrst af flóðinu í blöðunum.

„Maðurinn minn er ekki einu sinni enn búinn að segja mér frá þessu, þeir hafa ekki minnst á þetta en ég er búinn að sjá þetta á öllum fréttamiðlum.“

Hún segir að snjóflóðið geti ekki hafa verið mikið og bendir á að lítill sem enginn snjór sé í fjallshlíðunum fyrir ofan bæinn. Ekki sé einu sinni nægilegur snjór til að skíða á svæðinu. 

Hún bendir á að lítil hætta sé gagnvart fólki í gilinu þar sem að snjóflóðið varð og engin byggð sé þar.

„Þetta er frá byggð. Stóru flóðin voru í Skollahvilft og síðan í Bæjargili árið 2020. Þetta er ekki eitt af þessum stóru giljum og þetta er aðeins fyrir innan bæinn.“

Steinunn Guðný Einarsdóttir eftir að snjóflóðið féll í janúar 2020. …
Steinunn Guðný Einarsdóttir eftir að snjóflóðið féll í janúar 2020. Þá féll snjóflóðið meðfram varnargörðunum og í höfnina þar sem altjón varð á bátum. mbl.is/RAX

Ákveðinn skilningur á töfum

Töf hefur verið á framkvæmdum á endurbótum á snjóflóðavarnargörðum í kringum bæinn og hugmyndavinna og hönnun á endurbótunum hefur nú staðið yfir í næstum þrjú ár. Steinunn segir þó að öll svona vinna taki auðvitað tíma og að íbúar sýni því skilning.

„Við erum full vonar um að það verði hægt að fara í einhver verk í sumar. Það er búið að grafa meðfram görðunum og dýpka svo það er meiri hæð þarna undir bæjargili, það er strax til hins betra.“

Hún segir að upplýsingaflæðið um stöðu vinnunnar að endurbótum frá Ofanflóðasjóði og Verkís til íbúa hafi verið til fyrirmyndar fram að þessu.

Þolinmæði dugi ekki mikið lengur en sumarið

„Ég sef alveg ágætlega þarna í efstu götu en ég hugsa að þolinmæðin dugi ekkert mikið lengur en sumarið. Við erum bara heppin að það sé búið að vera snjólétt síðustu ár,“ segir hún og tekur fram að erfitt væri að fara inn í enn einn veturinn án nokkurra framkvæmda.

„Maður er ekkert rosalega þolinmóður þegar það kemur að öryggi en maður verður samt líka að sýna því skilning að sumt taki tíma. Mér finnst Kristín Matta Hákonardóttir hjá Verkís, sem er búin að vera að vinna þetta, hafa lagt mikla vinnu í þetta verkefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka