Umfangsmikil leit hefur haldið áfram í dag að Modestas Antanavicius, 46 ára karlmanni sem ekkert hefur spurst til síðan á laugardaginn.
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GRO, hefur leitað að honum með hitamyndavél, bæði á Brákarsundi og hjá strandlengjunni við Borgarnes. Einnig tekur björgunarsveitarbátur frá björgunarsveitinni Brák þátt í leitinni.
Björgunarsveitin setti jafnframt dróna á loft í hádeginu, auk þess sem keyrt er á staði þar sem líklegt er að Modestas gæti fundist.
Ef þörf krefur verða fjörur gengnar en líklega gerist það ekki fyrr en á laugardaginn, að sögn Ásmundar Kr. Ásmundssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Vesturlandi.
Modestas sást síðast á eftirlitsmyndavél klukkan 17.09 á laugardaginn þegar hann gekk inn í Olís-stöðina í Borgarnesi. Engar aðrar myndir hafa fundist af honum úr eftirlitsmyndavélum verslana þennan dag, segir Ásmundur. Engar ábendingar hafa sömuleiðis borist lögreglunni frá almenningi vegna hvarfs Modestas. Meðal annars kannar lögreglan hvort hann hafi farið í strætó eða úr landi.
Modestas er búsettur í Borgarnesi þar sem hann hefur starfað en hann var ekki á bíl sínum þegar hann hvarf. Hann var heldur ekki með síma á sér.
„Við erum að reyna að finna flöt á þessu og munum halda því áfram,“ segir Ásmundur og vonar að hann komi í leitirnar sem fyrst.
Ásmundur kveðst ekki vilja tjá sig um hvort Modestas sé fjölskyldumaður. Hann bendir þó á að leitin hafi byrjað eftir að fólk sem óttaðist um hann bað lögregluna um að lýsa eftir honum.
Spurður nánar út í leitina segir Ásmundur að þyrla Gæslunnar hafi flogið vel yfir svæðið í kringum Borgarfjarðarbrú í gær og út með firðinum. Lögreglan hefur einnig skoðað hvar hún hefur áður leitað að fólki. Leit með drónum stóð yfir til klukkan 20 í gærkvöldi.
Hann reiknar með því að leitin verði enn umfangsmeiri eftir því sem lengra líður á hana. Leitað verður á meðan bjart er úti. „Við höfum þennan glugga og reynum að nýta hann,“ segir Ásmundur. Lögreglumenn sem starfa í Borgarnesi taka þátt í leitinni ásamt hópi björgunarsveitarmanna.
Þeir sem hafa séð til Modestas eða vita hvar hann kann að vera niðurkominn eru beðnir um að láta lögregluna á Vestulandi vita í síma 444-0300 eða setja sig í samband við Neyðarlínuna í síma 112.