„Það var stundum smá kalt en við klæddum okkur vel,“ segja drengirnir ungu sem sóttu jólatré til íbúa á Kársnesi í Kópavogi gegn greiðslu um liðna helgi.
Þeir Hrafn Helgason, Tómas Berg Dagsson, Brynjar Ingólfsson og Kristján Karl Bergmann Valtýsson eru nemendur í 7. bekk Kársnesskóla. Þeir segja foreldra sína hafa fengið þessa hugmynd að fjáröflun fyrir komandi skólaferðalag að Reykjum í Hrútafirði.
„Við sóttum 82 tré um helgina og erum hættir að taka við pöntunum. Það var svolítið erfitt að fara með trén á milli í snjósköflunum en þau voru af öllum stærðum og gerðum. Stærstu trén voru að minnsta kosti tveir eða þrír metrar.“
Strákarnir hafa þekkst lengi en auk þess að vera bekkjarfélagar æfa þeir fótbolta saman. Inga Sigurðardóttir, móðir Brynjars, segir að þeir hafi náð að safna fyrir ferðinni og eiga meira að segja smáræði umfram sem þeir ætla að nota til að fá sér pitsu og fara í bíó.
„Þetta var mjög gaman, það kom pínu á óvart. Kannski gerum við þetta aftur á næsta ári,“ segja strákarnir hressir í bragði.