Stjórn Eflingar mun funda á morgun klukkan 13, þar sem verkfallsboðun verður að öllum líkindum rædd. Þetta staðfestir Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, í samtali við mbl.is.
Samninganefnd Eflingar sleit viðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins í gær og undirbýr því samninganefndin verkfallsboðun sem félagsfólk kemur til með að greiða atkvæði um.
Ólöf fékk ekki að sitja fund nefndarinnar í gærkvöldi sem var haldinn eftir að viðræðum var slitið.
Hún segist ekki geta spáð fyrir um hvort verkfall verði samþykkt. Þá hefur Ólöf ekki upplýsingar um hvaða hópar myndu fara í verkfall.
Ekki hefur náðst í Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, í dag.