Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, hefur úthlutað 30 milljónum króna í styrki til fjögurra frjálsra félagasamtaka vegna sex skilgreindra verkefna sem hafa það markmið að vinna gegn fíknisjúkdómum.
Styrkirnir voru auglýstir til umsóknar í október síðastliðinn og mat á styrkhæfni miðaðist við að verkefni væru byggð á faglegum grunni, hefðu raunhæf markmið, skýrt upphaf og endi og að árangur af þeim yrði metinn.
SÁÁ voru þau félagasamtök sem hlutu hæsta styrkinn. Annars vegar voru samtökunum veittar 10 milljónir króna til áframhaldandi þróunar foreldrafærninámskeiða sem hjálpa eiga foreldrum að takast á við, grípa inn í og sporna gegn því að vímuefnavandi ungmenna þeirra þróist út í alvarlegri vímuefnanotkun. Hins vegar voru samtökunum veittar 8,3 milljónir króna í verkefni um batastuðning jafningja innan eftirfylgdar ungmenna á göngudeild SÁÁ.
Rótin hlaut annars vegar 4,2 milljónir króna til verkefnis um heilbrigðisþjónustu fyrir jaðarsettar konur og hins vegar 4 milljónir króna vegna alþjóðlegrar ráðstefnu um stefnumótun í áfengis- og vímuefnamálum þar sem sérstök áhersla verður lögð á kynjasjónarmið og haldin verður hér á landi í haust.
Samhjálp hlaut 2 milljónir króna vegna innleiðingar áfallamiðaðrar nálgunar í meðferðarstarfi undir handleiðslu erlends sérfræðings og að síðustu hlaut Sorgarmiðstöðin 1,5 milljónir króna til að útbúa fræðsluefni fyrir syrgjendur sem misst hafa ástvin af völdum fíknar.
Kristín I. Pálsdóttir, talskona og framkvæmdastjóri Rótarinnar segir ótrúlega mikilvægt fyrir samtökin að fá þennan stuðning.
„Verkefnið um heilbrigðisþjónustu fyrir jaðarsettar konur er nýtt. Við tókum við rekstri Konukots árið 2020 og höfum lagt áherslu á að þróa úrræðið með því að til dæmis innleiða áfallamiðað nálgun og bæta þjónustuna. Við höfum samið við Reykjavíkurborg um að úrræðið sé mannað með launuðu starfsfólki en ekki að stórum hluta með sjálfboðaliðum eins og var áður.“
Kristín segir konurnar sem sækja Konukot finna mikið fyrir fordómum í samfélaginu og því vanti aðgengilega lágþröskuldaþjónustu fyrir þennan hóp.
„Við gerum ráð fyrir að vera með lækni og hjúkrunarfræðing á staðnum hálfan dag í viku en við eigum eftir að útfæra það betur. Konurnar geta þá gengið að þjónustunni á einhverjum skilgreindum tíma án þess að þurfa að panta tíma.“
Styrkurinn vegna ráðstefnunnar er einnig gríðarlega mikilvægur í huga Kristínar.
„Það er mikilvægt að vinna að stefnumótun í áfengis- og vímuefnamálum. Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, setti af stað heildarúttekt á meðferðarkerfinu og Rótin hafði talsverð áhrif á að slík heildarúttekt yrði gerð og við bíðum spenntar eftir niðurstöðum þeirrar úttektar enda er hún mjög mikilvæg fyrir það starf sem þarf að fara fram í sambandi við fíknistefnu, að við setjum okkur raunhæfa nútímalega stefnu sem er ekki lituð af draugum fortíðar.“
Hún segir að huga þurfi að skaðaminnkun í þessari stefnumótunarvinnu.
„Við erum afskaplega þakklátar fyrir þennan góða stuðning við þessi tvö verkefni sem okkur þykja mjög mikilvæg.“