Auglýsingaskilti 10-11 reyndist vera alltof stórt

Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Nýtt skilti verslunarinnar 10-11 á austurgafli Austurstrætis 17 er alltof stórt og hefur valdið nágrönnum ama vegna ljósmengunar. Að auki var það sett upp í óleyfi. Því hefur skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hafnað því að veita leyfi fyrir skiltinu.

Fram kemur í umsögn verkefnisstjóra skipulagsfulltrúa að húsið á lóð nr. 17 við Austurstræti sé verslunar- og skrifstofuhúsnæði á sjö hæðum, byggt 1963. Orkan.is ehf. óskaði eftir afstöðu skipulagsfulltrúa til endurnýjunar á skilti verslunarinnar 10-11, þar sem LED-skilti kemur í stað eldra skiltis.

Margir muna eftir skiltinu sem var áður á gaflinum en …
Margir muna eftir skiltinu sem var áður á gaflinum en hefur nú verið tekið niður. Nýja skiltið er áberandi með LED-ljósunum. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

„Hér er um að ræða verslun 10-11 sem hefur um árabil haft á gafli Austurstrætis 17 upplýst skilti, sem samanstendur af nokkrum stökum einingum sem saman mynda eina heild. Skv. lögfræðingi á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar var ekki sótt um byggingarleyfi fyrir umræddu skilti. Nú hefur því verið skipt út fyrir mun stærra skilti sem ekki heldur var sótt um leyfi fyrir. Kvörtun hefur borist vegna ljósmengunar frá nýja skiltinu,“ segir í umsögn verkefnisstjórans.

Þá kemur fram að í samþykktum skiltaleiðbeiningum segi að í miðborginni sé heimilt að vera með upplýst og óupplýst þjónustuskilti á byggingum eða mannvirkjum. Skilti skuli almennt samanstanda af stakstæðum bókstöfum. Stærð þeirra takmarkast við fjóra fermetra ef um stakstæða stafi er að ræða (þar sem byggingin er sýnileg á bak við skiltið) en einn fermetra ef um er að ræða veggspjald. „Nýja skiltið er 2,56x12,48 metrar eða samtals 31,95 fermetrar að stærð sem er langt umfram leyfilega stærð í samþykktum leiðbeiningum auk þess sem það hylur gaflhliðina alveg. Það er því ekki hægt að segja að það taki tillit til umhverfisins eða falli vel að staðaranda. Því er tekið neikvætt í erindið,“ segir í umsögninni.

Ekki er vikið að því hvort eigandanum beri að taka skiltið niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert