Dagbjört nýr svæðissérfræðingur

Dagbjört Jónsdóttir
Dagbjört Jónsdóttir Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Dagbjört Jónsdóttir hefur verið ráðin sem svæðissérfræðingur hjá Umhverfisstofnun á Norðurlandi eystra. Mun hún meðal annars koma til með að taka þátt í endurskoðun á stjórnunar- og verndunaráætlun fyrir verndarsvæði Mývatns og Laxár.

„Hún bætist í öflugan hóp svæðissérfræðinga stofnunarinnar sem sinna samanlagt yfir hundrað náttúruverndarsvæðum um allt land,“ segir í tilkynningu frá Umhverfisstofnun.

Reynsla úr starfi sem sveitarstjóri

Dagbjört er með B.A. gráður í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá háskólanum á Bifröst. Hún var sveitarstjóri í Þingeyjarsveit á árunum 2012 til 2022. Þar áður var hún skrifstofustjóri hjá sveitarfélaginu.

Í starfi sínu sem sveitarstjóri hafði Dagbjört yfirumsjón með uppbyggingu innviða við Goðafoss fyrir friðlýsingu hans. Sat hún í starfshópi vegna friðlýsingar Goðafoss og annarra friðlýsinga á svæðinu.

Dagbjört mun starfa á Gíg, sameiginlegri starfsstöð Umhverfisstofnunar, vatnajökulsþjóðgarðs, Landgræðslunnar og Náttúrurannsóknarstöðvar við Mývatn, Ramý.

„Reynsla Dagbjartar sem sveitarstjóri og þátttaka í verkefnum sem tengjast friðlýsingum og stjórnunar- og verndaráætlunum mun gagnast mjög vel í starfi svæðissérfræðings á Norðausturlandi. Við bjóðum hana hjartanlega velkomna í hóp öflugs starfsfólks sem sinnir náttúruvernd hjá Umhverfisstofnun“ er haft eftir Ingu Dóru Hrólfsdóttur, sviðsstjóra á sviði náttúruverndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert