„Ekki að tala um mengandi iðnað“

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segir áform bæjarins um uppbyggingu í …
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segir áform bæjarins um uppbyggingu í Rjúpnahlíð á byrjunarstigi. mbl.is/Arnþór

Atvinnustarfsemi sem á að rísa í Rjúpnahlíð í Garðabæ verður nútímaleg og snyrtileg að sögn Almars Gunnarssonar, bæjarstjóra Garðabæjar. Hann leggur áherslu á að ferlið sé skammt á veg komið.

Bæjarstjórn Kópavogs andmælir áformunum og telur að þau munu verða íbúum Kópavogs í Austurkór, sem liggur nærri svæðinu, til ama.

„Fyrir liggur skipulagslýsing, sem er allra fyrsta skref,“ segir Almar. Ljóst sé að henni verði breytt að fengnum ábendingum og athugasemdum.

Í lýsingunni kom fram að svæðið væri hugsað fyrir atvinnustarfsemi sem sé ekki æskileg í íbúðarbyggð.

Að hluta til sammála Kópavogsbúum

„Í henni [skipulagslýsingunni] eru orð sem Kópavogsbúar taka til sín og finnst ekki passa. Ég er að hluta til sammála því. Það hefur aldrei verið ástetningur okkar að setja eitthvað niður eitthvað þarna sem er ósnyrtilegt eða mengandi. En við teljum hins vegar eðlilegt að atvinnustarfsemi eigi sér stað á höfuðborgarsvæðinu og horfum til þess að skipuleggja hverfin með það í huga. Við erum ekki að tala um mengandi iðnað,“ segir Almar.

Slíkt sé ekkert einsdæmi á þessum slóðum, þar sem slík svæði séu í framtíðaruppbyggingu hjá öðrum sveitarfélögum.

„Viljum gefa þessu rými“

„Meginmálið er samt sem áður það að þetta er snemmt. Við viljum gefa þessu rými, við höfum fullan skilning á því að fólk geri athugasemdir.“

Almar segir þá að ekki sé rétt að atvinnustarfsemin muni rísa í íbúðabyggð og að ekki verði vegið að græna treflinum, útivistarsvæði sem tengir saman græn svæði höfuðborgarsvæðisins.

Svæðið þar sem atvinnuuppbyggingin er áformuð.
Svæðið þar sem atvinnuuppbyggingin er áformuð. Kort/Map.is

„Hugmyndin er að þarna verði grænt svæði sem aðskilji og það verði nægilegt og hæfilegt. Svo skiptir auðvitað máli að landið sem um ræðir er í Garðabæ. Það hefur mikið verið rætt um hinn svokallaða græna trefil. Þar er mikill misskilningur á ferðinni. Hann mun liggja sunnar og austar. Hann fer ofar og mætir þar Guðmundarlundi, sem er einmitt í landi Kópavogs,“ segir Almar.

Leggi upp mikið upp úr útivistarsvæðum

Garðabær leggi mikið upp úr aðgengi að grænum svæðum: „Við erum með mikið af landi friðlýst, Við höfum reyndar staðið okkur vel í því.“

Ítrekar Almar að lokum að málið sé á byrjunarstigi og muni hafa sinn gang. Tillagan sé sett fram á þann hátt að uppbyggingin verði ekki ofan í byggð. „Við erum að vinna þetta í þeim ferlum sem á við.“ Svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins tekur málið brátt til umfjöllunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka