Íslenskan í aftasta sæti hjá Play

Play segir aðaltungumál sitt vera ensku þar sem flugfélagið sé …
Play segir aðaltungumál sitt vera ensku þar sem flugfélagið sé alþjóðaflugfélag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allar upplýsingar á skjáum um borð hjá íslenska flugfélaginu Play eru á spænsku. Þá er útprentaður matseðill flugfélagsins á ensku og upplýsingar um hvar finna megi björgunarvesti við neyðarlendingu á ensku og spænsku.

Flugfélagið segir ástæðuna vera þá að flugfélagið sé alþjóðlegt fyrirtæki og því sé enska aðaltungumálið.

Upplýsingar á skjáum um borð eru á spænsku.
Upplýsingar á skjáum um borð eru á spænsku. mbl.is/Inga Þóra

Íslenskan pappírsfrek

Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is segir Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri Play, að til standi að hætta með útprentaða matseðla. Í stað þeirra komi rafrænir matseðlar.

Með þeirri breytingu segir hún að hægt verði að kynna sér matarúrvalið um borð á íslensku.

„Hingað til hafa matseðlar um borð verið einungis á ensku en það er meðal annars til þess að minnka pappírsnotkun um borð. Það stendur hins vegar til, og stóð alltaf til, að breyta matseðlunum í rafræna matseðla í ljósi umhverfissjónarmiða. Farþegar skoða þá matseðilinn í símanum og þá verður hægt að velja um íslensku, ensku og önnur tungumál.“

Matseðillinn er á ensku.
Matseðillinn er á ensku. mbl.is/Inga Þóra

Skjáirnir hverfa

Varðandi það að allar upplýsingar á skjáum um borð séu á spænsku segir Nadine Guðrún:

„Þrjár vélar PLAY hafa verið búnar skjáum sem sýna farþegum flugleiðina. Tungumálið á skjáunum er spænska en þetta eru skjáir sem voru settir upp af fyrri flugrekanda og stóð alltaf til að þeir yrðu fjarlægðir. Nú er loks komið að því og skjáirnir í vélunum þremur verða teknir niður í næsta mánuði.“

Nadine Guðrún bendir á að skyldi íslenskur farþegi ekki kunna ensku geti hann beðið flugliða um aðstoð.

„Til að koma til móts við þá Íslendinga sem ekki kunna ensku er alltaf tekið fram í ávarpi flugliða að ef einhver þurfi aðstoð við að skilja t.d. öryggisatriði eða annað þá sé hægt að tala við flugliða og fá aðstoð á íslensku.“

Upplýsingar um hvar björgunarvesti megi finna eru á ensku og …
Upplýsingar um hvar björgunarvesti megi finna eru á ensku og spænsku, en ekki á íslensku. mbl.is/Inga Þóra

Segjast taka umræðuna til sín

Í október fjallaði mbl.is um að í flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar í Kefla­vík væru flest skilti með ensk­una í for­grunni. Ís­lensk­an kæmi þar fyr­ir neðan sem annað tungu­mál, og stundum alls ekki.

Umfjöllunin vakti athygli og leiddi til þess að stjórn Isa­via samþykkti bók­un á fundi sínum þess efn­is að ís­lenska yrði í for­grunni tungu­mála við end­ur­nýj­un merk­inga­kerf­is í flug­stöðinni. 

Upp á síðkastið hefur farið fram mikil umræða um stöðu íslenskunnar. Takið þið þessa umræðu ekki til ykkar?

„Jú, en aftur þá erum við alþjóðlegt fyrirtæki með mikið af framúrskarandi fólki sem talar ekki íslensku í vinnu og þá eru vélarnar okkar langoftast með stóran meirihluta um borð sem talar ekki íslensku,“ segir í svari Nadine Guðrúnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert