Smásöluálagning lyfseðilsskyldra lyfja hækkar að meðaltali um 10,60% frá og með 1. mars næstkomandi. Greint er frá þessari breytingu á vef Lyfjastofnunar og er tekið fram að smásöluálagningin hækki sem samsvarar verðlagsforsendum fjárlaga yfirstandandi árs.
„Í kynningarefni Lyfjastofnunar um ákvörðunina var tekið mið af gjaldskrárhækkun stofnunarinnar milli ára. Í samræmi við þær forsendur hefur heilbrigðisráðherra ákveðið gjaldskrá Lyfjastofnunar 2023 sem hækkar að meðaltali um 10,60% miðað við fyrra ár,“ segir í tilkynningu Lyfjastofnunar. Tekið er fram að greint verði frá því innan nokkurra vikna hvernig hækkunin mun dreifast á verðbil smásöluálagningar en álagningu lyfjanna er skipt í fjögur þrep og ákveður Lyfjastofnun hámarksverð í smásölu á ávísunarskyldum lyfjum í hverjum flokki.
Ýmsar gjaldskrárbreytingar urðu í heilbrigðisþjónustunni um nýliðin áramót og birti heilbrigðisráðuneytið yfirlit yfir nokkrar þeirra í gær. Ákveðið var að halda greiðsluþátttöku vegna lyfjakostnaðar óbreyttri á þessu ári frá því sem verið hefur og engar breytingar urðu um áramótin á fjárhæðum sem varða hámarksgreiðslur sjúkratryggðra vegna lyfjakostnaðar. Komugjöld í heilsugæslu eru einnig óbreytt á yfirstandandi ári.
„Greiðslur til sjúkratryggðra og gjöld sjúkratryggðra fyrir heilbrigðisþjónustu hækkuðu almennt 1. janúar sl. um 10,6% í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga. Þannig hækkuðu meðal annars sjúkradagpeningar og bætur slysatrygginga um 10,6%,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.