„Það er náttúrulega engin spurning að maður vonar að bakaríið verði hérna áfram, en á hvaða formi það verður er auðvitað erfitt fyrir okkur að segja sem erum ekki að reka það,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, í samtali við mbl.is þar sem Fellabakarí í Fellabæ er til umræðu en Þráinn Lárusson, eigandi bakarísins, sagði mbl.is af þungum róðri á mánudaginn.
„Það er dapurlegt ef niðurstaðan verður að það séu ekki rekstrarforsendur fyrir þessu, en ég veit ekki meira en það sem ég hef séð haft eftir rekstraraðila, að verið sé að skoða breytt fyrirkomulag, og ég vona sannarlega að þessu verði ekki lokað til frambúðar, íbúum hér hefur þótt ósköp þægilegt að geta farið í þetta bakarí,“ segir sveitarstjóri.
Vitnar hann í viðtal við Þráin þar sem hann ræddi breyttar rekstrarforsendur og sagði í skoðun hvaða leiðir væru mögulegar til að halda bakstrinum áfram í einhverri mynd.
Er atvinnulífið almennt með blóma í umdæmi Björns?
„Það er í góðum gír, hér er töluverð spurn eftir fólki, það sem hefur háð er skortur á íbúðarhúsnæði, hér er töluvert verið að byggja og úthluta lóðum í öllum byggðarkjörnunum hjá okkur svo maður vonar að þetta verði ekki eitthvað sem standi í vegi fyrir uppbyggingu,“ svarar Björn.
Hann segir ferðaþjónustu á svæðinu hafa þróast mikið undanfarin ár. Þar sé þó um árstíðabundna starfsemi að ræða og henni fylgi því eðlilega starfsfólk sem komi til tímabundinnar dvalar. „Þá er náttúrulega vandamál að finna því húsnæði, en hér er ekki atvinnuleysi, það er frekar umframeftirspurn og það upplifi ég fyrir Austurland allt, ekki bara Múlaþing,“ segir Björn Ingimarsson sveitarstjóri að lokum.