„Við lítum málið alvarlegum augum. Þetta er ömurleg uppákoma. Við vitum ekki hvernig bílstjórinn hefur það. Það eina sem við vitum er að hann er frá vinnu og hann lét eitthvað kíkja á sig í dag,“ segir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða.
Bílstjóri strætisvagns, sem fékk yfir sig snjó úr gröfuskóflu í Kópavogi í gær, er starfsmaður Kynnisferða.
Björn segir forsvarsmenn Kynnisferða ekki hafa náð tali af bílstjóranum í dag en að fundað verði með honum á morgun.
Bílstjórinn var í akstursverkefni fyrir Strætó þegar atvikið átti sér stað en Kynnisferðir sjá um akstur á tíu leiðum Strætó.
„Hann mun fara yfir sína hlið á málinu. Það var fundur hjá Strætó í dag með forsvarsmönnum gröfufyrirtækisins þar sem þeirra hlið á málinu kom fram, ég get ekki tjáð mig um það sem þar kom fram. Við vonum auðvitað að þeir aðilar sem eiga í hlut geti leyst málið farsællega.“
Bílstjórinn segist í viðtali við Vísi munu kæra gröfumanninn fyrir tilraun til manndráps. Segir maðurinn að mikill ís hafi verið í snjónum sem hann fékk yfir sig og að hann hafi meiðst mikið bæði í hálsi og baki.
Fullyrðir hann að gröfumaðurinn hafi hótað að slá til hans með skóflunni á gröfunni.
Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, kveðst lítið vilja tjá sig um málið. Hann þekki málið takmarkað þar sem hann sé ekki við vinnu um þessar mundir.
Hann segist þó taka undir orð verktakafyrirtækisins Óskataks, sem gröfumaðurinn starfar hjá, og kveðst harma atvikið.