„39 mjög góðar tillögur“

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Unnur Karen

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kynnti niðurstöður viðbragðsteym­is um bráðaþjón­ustu á ríkisstjórnarfundur í morgun. 

Í samtali við mbl.is segir Willum að um sé að ræða mjög góða skýrslu sem fjalli um bráðaþjónustu á öllu landinu, þar með talið á höfuðborgarsvæðinu. 

„Ég kynnti hana í ríkisstjórn í dag. Þarna eru 39 mjög góðar tillögur,“ segir hann og bætir við að einni þeirra hafi hann nú þegar hrint í framkvæmd. 

„Það eru 300 milljónir sem fara í tækjakaup fyrir alla landsbyggðina fyrir bráðaþjónustu. Kaup á fjölmörgum tækjum. Við tókum saman yfirlit yfir stöðu tækjabúnaðar alls staðar á landinu. Það fóru 100 milljónir í það á síðasta ári og 200 milljónir fara í það til að uppfæra tækjabúnaðinn á þessu ári,“ segir Willum. 

„Í megindráttum snúa tillögur viðbragðsteymisins að því að efla og samræma bráðaþjónustu um allt land, auka samvinnu milli stofnana, skilgreina viðmið um gæði þjónustunnar, styðja við menntun og þjálfun viðbragðsaðila, innleiða skilgreiningar á viðbragðstíma sjúkraflutninga og fleira,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins en meðal annars er lagt til að stofnuð verði bráðafjarheilbrigðismiðstöð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert