Endurgreiðslur vegna kostnaðar við kvikmyndaframleiðslu hér á landi hafa aldrei verið hærri en í fyrra. Þær námu tæpum 3,4 milljörðum króna sem er um 42% hærra en á fyrra metári, árið 2020.
Endurgreiðslur vegna erlendra verkefna námu rétt tæpum tveimur milljörðum króna í fyrra. Fram til þessa höfðu mest verið greiddir út 1,4 milljarðar króna vegna erlendra verkefna. Greiðslur vegna innlendra verkefna voru tæpir 1,4 milljarðar.
Hæstu greiðslurnar voru vegna Netflix-kvikmyndarinnar Against the Ice sem RVK Studios framleiddi, tæpar 500 milljónir króna. Næsthæstu endurgreiðslurnar voru vegna sjónvarpsþáttanna The Retreat sem skarta leikurunum Emmu Corrin og Clive Owen í aðalhlutverkum. Námu greiðslurnar 374 milljónum króna en það var TrueNorth sem sá um framleiðsluna hér á landi. Það fyrirtæki sá einnig um kvikmyndina Heart of Stone sem fékk 298 milljónir í endurgreiðslu. Stærsta íslenska verkefnið var Verbúð sem fékk 210 milljónir í endurgreiðslur. Sjónvarpsþættirnir Svörtu sandar fengu 182 milljónir og kvikmynd um Stellu Blómkvist 171 milljón.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.