Almenna reglan að auglýsa störf

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

„Almenna reglan er auðvitað – og ég fylgi henni – að auglýsa, mér finnst það rétta leiðin,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is um skipun Sig­urðar H. Helga­sonar í embætti for­stjóra Sjúkra­trygg­inga Íslands án þess að auglýsa starfið fyrst.

Willum bendir á að skipunin hafi verið gerð á grund­velli heim­ild­ar í 36. grein laga um rétt­indi og skyld­ur starfs­manna rík­is­ins og hef­ur Sig­urður verið flutt­ur úr embætti skrif­stofu­stjóra í fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­inu sem hann hefur gegnt síðan árið 2013.

Athygli vakti er flokksystir Willum, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskipamálaráðherra, skipaði nýjan þjóðminjavörð án auglýsingar á síðasta ári. 

Tryggja samfellu 

„Í þessu tilviki horfi ég á að tryggja samfellu í starfsemi stofnunarinnar, þar er fyrir hæfileikaríkt starfsfólk og öflugur stjórnandi sem að segir upp og er að hverfa frá störfum,“ segir Willum og vísar þar til þess að María Heimisdóttir sagði upp starfi sínu sem forstjóri stofnunarinnar vegna vanfjármögnunar. 

Willum segir Sigurð vera öflugan stjórnenda með öflugan bakgrunn, „sérstaklega á sviði heilbrigðismála“.

Sigurður hefur í tengslum við störf sín unnið að fjölþættum verkefnum á sviði heilbrigðismála. Meðal annars tók hann virkan þátt í undirbúningi breytinga sem leiddu til laga um sjúkratryggingar og stofnunar Sjúkratrygginga Íslands árið 2008. Þá situr hann í stjórn Nýs Landspítala ohf. sem annast uppbyggingu á nýjum innviðum Landspítala,“ sagði í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

„Ég tók þá ákvörðun á þeim grundvelli að tryggja þessa samfellu að skipa hann í embætti. Nú er það þannig að þessi 36. grein hún gefur engan afslátt á tíma skipunar. Hann er fimm ár enda þarf stjórnandi að fá traust og tiltrú inn í starf. Það er hins vegar í eðli svona skipana að þær eru í takmarkaðan tíma,“ segir Willum að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert