Bráðafjarheilbrigðismiðstöð verði stofnuð

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra skipaði viðbragðsteymi um bráðaþjónustu í landinu …
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra skipaði viðbragðsteymi um bráðaþjónustu í landinu í ágúst síðastliðnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það þarf að efla og samræma bráðaþjónustu um allt land, auka samvinnu milli stofnana, skilgreina viðmið um gæði þjónustunnar, styðja við menntun og þjálfun viðbragðsaðila og innleiða skilgreiningar á viðbragðstíma sjúkraflutninga. Þetta eru helstu niðurstöður viðbragðsteymis um bráðaþjónustu sem skipað var af heilbrigðisráðherra í ágúst.

Hlutverk þess var að setja fram tímasetta áætlun til næstu ára um breytingar og umbætur í bráðaþjónustu um allt land. Teymið hefur nú skilað ráðherra umfjöllun sinni um umbætur með 39 tillögum um aðgerðir til skemmri og lengri tíma. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Faglegur stuðningur stórefldur

Þá er lagt til að stofnuð verði bráðafjarheilbrigðismiðstöð og leggur teymi ríka áherslu á að stórefla faglegan stuðning við alla þá viðbragðsaðila sem sinna bráðaþjónustu um allt land, meðal annars við sjúkraflutninga og ekki síður heilbrigðisstarfsfólk á starfsstöðvum heilbrigðisstofnana í dreifðari byggðum.

Lagt er til að miðstöðin sinni 1) læknisfræðilegri stjórnun og ráðgjöf fyrir sjúkraflutninga, 2) bráða-læknisráðgjöf fyrir heilsugæslu í dreifbýli, 3) fjarheilbrigðisþjónustu fyrir sjófarendur, vettvangsliða og björgunarsveitir, auk 4) faglegrar ráðgjafar við Neyðarlínu, meðal annars til 5) ákvörðunar um notkun sjúkraflugs og þyrlu. Verkefnið á sér fyrirmyndir erlendis.

Ýtarlega er fjallað um þetta verkefni í meðfylgjandi skýrslu viðbragðsteymisins. 

Skýrar og rökstuddar tillögur

„Þetta eru skýrar og vel rökstuddar tillögur um markvissar aðgerðir til að efla og bæta bráðaþjónustu um allt land. Þannig aukum við öryggi sjúklinga, styðjum markmiðið um að veita rétta þjónustu á réttum stað og jöfnum álag á stofnanir heilbrigðiskerfisins,“ er haft eftir Willum Þór.

Jón Magnús Kristjánsson, sérfræðingur í bráðalækningum, leiddi vinnu teymisins og segir hann samstöðuna í hópnum hafa mikla þýðingu: „Við erum sannfærð um að með því að hrinda þessum tillögum í framkvæmd munum við sjá miklar breytingar á næstu misserum með öruggari, skilvirkari og betri bráðaþjónustu,“ er haft eftir honum í tilkynningunni.

Í samræmi við skipunarbréf var megináhersla lögð á móttöku bráðatilvika alls staðar í heilbrigðiskerfinu. Teyminu var skipt í vinnuhópa sem hver um sig fjallaði um og gerði tillögur til umbóta sem snúa að eftirtöldum þáttum:

  • Kortlagningu, verkaskiptingu og stigun bráðaþjónustu á landsvísu
  • Faglegum stuðningi við sjúkraflutninga á landsvísu og móttöku bráðatilvika í dreifðari byggðum
  • Endurskoðun á bráðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu utan dagvinnutíma
  • Skilgreiningu lykilmarkmiða og mælikvarða fyrir þjónustu á bráðamóttökum
  • Aukinni bráðaþjónustu við einstaklinga í heimahúsum eða á hjúkrunarheimilum og mat á áhrifum þess á aðsókn og álag á bráðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu 

Búið að rástafa tæpum 330 milljónum

Þegar er búið að ráðstafa tæpum 330 milljónum króna til að bæta tækjabúnað vegna bráðaþjónustu á heilbrigðisstofnunum og heilsugæslustöðvum um allt land. Ákvörðunin byggist á tillögum viðbragðsteymisins um aðgerðir til að jafna aðgengi að bráðaþjónustu um allt land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert