Hæstiréttur hefur fallist á áfrýjunarleyfi Ferðaskrifstofu Íslands í þremur málum þar sem ferðaskrifstofan hafði verið dæmd bæði í héraðsdómi og Landsrétti til að endurgreiða pakkaferð til Ítalíu sem var afpöntuð vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins, en meðal annars er deilt um hvort „force majeure“ ákvæði eigi þarna við. Segir í ákvörðun Hæstaréttar að dómur í málinu geti haft fordæmisgildi um rétt til endurgreiðslu vegna afpöntunar pakkaferða og áfrýjunarleyfið því veitt.
Í nóvember staðfesti Landsréttur dóma héraðsdóms í máli þriggja einstaklinga sem höfðu afpantað ferðir til Ítalíu hjá fyrirtækinu, en þar tók Landsréttur undir sjónarmið héraðsdóms að ör útbreiðsla veirunnar á áfangastaðnum hefði falið í sér óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður í skilningi laga um pakkaferðir og samtengda feratilhögun, sem höfðu afgerandi áhrif á fyrirhugað ferðalag kaupenda og fjölskyldna þeirra.
Gerðu þær aðstæður það að verkum að ekki var öruggt að ferðast til Ítalíu og talið því að þeir sem höfðu fest kaup á pakkaferðinni ættu af þeim sökum rétt til fullrar endurgreiðslu hennar úr hendi ferðaskrifstofunnar, á grundvelli fyrrgreindra laga.
Ferðaskrifstofa Íslands samanstendur af Úrval Útsýn, Sumarferðum, Plúsverðum og Iceland Travel Bureau.
Í beiðni sinni til Hæstaréttar segir Ferðaskrifstofa Íslands að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu sem selji pakkaferðir eða samtengda ferðaþjónustu. Þá hafi þetta einnig verulega fjárhagslega þýðingu fyrir fyrirtækið og að dómur Landsréttar hafi verið bersýnilega rangur að efni til þar sem byggt sé á rangri lögskýringu. Tekur Hæstiréttur sem fyrr segir undir að málið geti haft fordæmisgildi.
Það eru lögmennirnir Ólafur Gústafsson og Grétar Már Ólafsson sem fóru upphaflega í mál við ferðaskrifstofuna ásamt Steinari Þór Ólafssyni, en þeir Ólafur og Grétar flytja sín mál sjálfir og Ólafur flytur einnig mál Steinars.