Ekkert launaþak hjá verkfræðingum

Samningur VFÍ var gerður við Félag ráðgjafarverkfræðinga (FRV), sem er …
Samningur VFÍ var gerður við Félag ráðgjafarverkfræðinga (FRV), sem er aðili að Samtökum iðnaðarins, en ekki við SA.

Verkfræðingafélag Íslands (VFÍ) gerði kjarasamning skömmu fyrir jól sem kveður á um 6,75% launahækkun, líkt og í samingunum sem SA gerði við SGS, verslunarmenn og samflot iðn- og tæknifólks í desember. SA fer ekki með samningsumboð við Verkfræðingafélagið og hefur enga aðkomu að samningaviðræðum eða undirritun samninganna. 

Samningur verkfræðinga er hins vegar án launaþaks en í samningum ASÍ-félaganna var kveðið á um 66 þúsund kr. hámark á almennar launahækkanir.

Samningur VFÍ var gerður við Félag ráðgjafarverkfræðinga (FRV), sem er aðili að Samtökum iðnaðarins, og nær til félagsmanna í VFÍ, Stéttarfélagi byggingafræðinga og Stéttarfélagi tölvunarfræðinga, sem starfa í aðildarfyrirtækjum FRV á verkfræðistofum. Samningurinn gildir frá 1. janúar sl. til 31. mars á næsta ári. Tekið er fram að með þessari prósentuhækkun launa hafi hagvaxtarauka, sem koma átti til greiðslu 1. maí, verið flýtt og hann að fullu efndur. Þá var samið um að greiða afturvirka 103 þús. kr. desemberuppbót vegna ársins 2022 til að brúa samningsleysi frá 1. nóv. til 31. desember á síðasta ári. Samið var um að 100 þúsund kr. eingreiðsla verði greidd 1. september næstkomandi.

Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) vísa til þessa samnings í kjaradeilu sinni við SA en strandað hefur á launaþakinu sem starfsmenn fjármálafyrirtækjanna segja að komi í veg fyrir að þeir fái sambærilegar hækkanir og aðrir í skammtímasamningi. Þeir muni áfram sitja eftir í launaþróuninni.

Samninganefnd SSF hafnaði tilboði SA á sáttafundi í gær og lagði fram annað tilboð sem samninganefnd SA hyggst fara yfir fyrir næsta fund á mánudaginn. „Við áttuðum okkur á því að annað stórt félag við hliðina á okkur á almennum markaði, sem er Verkfræðingafélagið, gerði kjarasamning rétt fyrir jól um 6,75% hækkun án þaks, þannig að einn af okkar viðmiðunarhópum er þegar búinn að ná fram þeirri kröfu sem við erum með, að fá 6,75% án þaks,“ segir Ari Skúlason, formaður SSF.

Að sögn hans kannaði félagið hug félagsmanna og sendi út spurningar. „Við fengum mjög mikil viðbrögð og allt öðruvísi og harðari viðbrögð en við höfum heyrt áður. Fólk áttar sig á því að það hefur hallað verulega á þennan hóp á síðasta samningstímabili og það situr í fólki,“ segir Ari. Að mati SSF hækkuðu laun á fjármálamarkaði 7% minna en meðallaun á síðasta samningstímabili.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert